Málefni ungs fólks á sviði jafnréttismála

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 15:24:17 (2208)

1999-12-02 15:24:17# 125. lþ. 34.9 fundur 184. mál: #A málefni ungs fólks á sviði jafnréttismála# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu máli. Það er rétt hjá hv. 1. flm. að við erum búin að fínkemba öll lög og allar reglur í leit að mismunun kynjanna og ég hygg að nánast sé hvergi lengur að finna neitt sem mismunar kynjunum með lögum eða reglum.

Engu að síður sýna kannanir að t.d. launamunur kynjanna er enn verulegur og því miður, herra forseti, þrátt fyrir starf Kvennalistans og aukna umræðu um þessi mál, þá virðist sem launamunur kynjanna fari frekar vaxandi en hitt. Ég held að menn þurfi virkilega að fara að spyrja sig hvernig standi á því. Ég hef margoft sagt að það er hreint hagsmunamál þjóðarinnar að jafnrétti kynjanna komist á og ég hef gengið lengra. Ég hef talað um að jafnrétti fólks komist á vegna þess að ef ekki er jafnrétti fólks, þá er þjóðin ekki að nýta hæfileika hvers einstaklings eins og skyldi. Ef ráðinn er í stöðu lakari einstaklingur í stað hæfileikaríkari, þá er ekki verið að nýta hæfileika þjóðarinnar til fullnustu og það kemur niður á lífskjörum hennar. Þannig að jafnréttismál eru um leið spurning um lífskjör.

Sú þróun að launamunurinn virðist frekar fara vaxandi segir mér að eitthvað sé að. Það getur verið að eitthvað sé að baráttunni sjálfri. Kannski einblínum við of mikið á afleiðingar misréttis fólks sem birtist í misrétti kynjanna en gleymum að athuga af hverju misrétti fólks stafar. Ég hef áður nefnt að misrétti fólks stafar sennilega að töluverðu leyti, fyrir utan náttúrlega fordóma og annað slíkt, af því að ekki er gerð arðsemiskrafa í atvinnulífinu. Hvorki hjá einkafyrirtækjum og alls ekki hjá opinberum fyrirtækjum. Vöxtur hins opinbera þar sem ekki er gerð krafa um arðsemi alveg sérstaklega veldur því að sífellt færri launþegar falla undir arðsemiskröfuna, þ.e. þá kröfu að fyrirtækjum sé nauðsyn að ráða hæfasta einstaklinginn og þar af leiðandi geti vöxtur hins opinbera valdið því að misrétti vex og launamisrétti kynjanna vex. Ég bendi á það aftur að launamisrétti kynjanna er ekkert annað en afleiðing af launamisrétti fólks, þ.e. að hæfari karlmaður fær ekki stöðu en óhæfari karlmaður fær hana, sem er sama hliðin á þessum vanda.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við ræðum sérstaklega um afstöðu ungs fólks til jafnréttismála því mér sýnist, því miður, herra forseti, að afstaða ungs fólks og alveg sérstaklega ungra pilta til jafnréttismála sé heldur að hraka í þeim skilningi að þeir vilji ekki viðhafa jafnrétti á heimilum sínum. Ég hef stundum mæður þeirra grunaðar um að hafa ekki kennt þeim nægilega vel um jöfn vinnubrögð inni á heimilinu, jöfn vinnubrögð beggja kynja.

Það er á hreinu að það þýðir ekkert að breyta þjóðfélaginu með lögum þegar misréttið er á heimilunum sjálfum. Því verður að breyta með afstöðu til hlutverka kynjanna og hér er einmitt hreyft því að setja á fót nefnd sem fjalli um málefni ungs fólks á sviði jafnréttismála. Sem sagt að ræða um afstöðu ungs fólks til jafnréttismála.

Þess vegna tel ég, herra forseti, að þessi till. til þál. leyni á sér. Hún er dýpri en þátttaka í umræðunni og þátttaka í þingsal segir mér. Hún nær miklu dýpra og ég legg til að hún fái gott brautargengi þegar hún verður rædd í nefnd.