Bifreiðagjald

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 10:33:11 (2210)

1999-12-03 10:33:11# 125. lþ. 35.9 fundur 219. mál: #A bifreiðagjald# (gjaldskylda, innheimta) frv. 37/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[10:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um bifreiðagjald. Í frv. eru tvær meginefnisbreytingar. Annars vegar er um það að ræða að lagt er til að flytja forsjá þessa gjalds frá núverandi innheimtumanni ríkissjóðs, þ.e. tollstjóranum í Reykjavík til ríkisskattstjóra, enda þykir óeðlilegt að innheimtumaðurinn annist bæði álagningu og innheimtu eins og verið hefur í þessu tilfelli.

Í öðru lagi er um það að ræða að flytja úr reglugerð nokkrar heimildir sem veittar hafa verið ráðherra og taka þær beint upp í lögin sjálf, eins og eðlilegt er og eins og núgildandi ákvæði stjórnarskrár gera ráð fyrir.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi vekja athygli á, herra forseti, að því er varðar þetta mál en að öðru leyti er ekki um stórar efnisbreytingar að ræða og ekki heldur um að ræða breytingar á gjaldtöku þeirri sem felst í þessu gjaldi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.