Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 10:57:39 (2213)

1999-12-03 10:57:39# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[10:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég er hræddur um að ég geti ekki farið með allar tölur í sambandi við þessi mál svona upp úr mér, gjaldtöku á einstakar tegundir bíla. Hins vegar er ljóst að eigendur lítilla dísilbíla, bíla sem eru undir 4 tonnum að þyngd --- í þeim flokki eru flestir jeppar sem almenningur á og notar --- geta valið sér að greiða fast gjald, óháð notkun. Að sjálfsögðu fer það eftir notkun viðkomandi bíls hvernig það kemur út. Ég býst við að miðað við venjulega notkun, 20.000 km eða svo, breyti litlu hvort menn borga fastagjaldið eða kílómetragjaldið. Þá hagnast menn, keyri þeir minna en það, á að borga á hvern kílómetra. Ef þeir keyra meira þá hagnast þeir á því að borga fastagjaldið. Einhvers staðar er sem sagt skurðpunktur í þessu sem ég þori ekki alveg að fullyrða hvar liggur.

Varðandi síðara atriðið er þar um að ræða mjög stórt mál en sannleikurinn er sá að tækniþróun í sambandi við gerð bílvéla er mjög ör. Fram á sjónarsviðið eru að koma miklu hreinni bílvélar sem brenna minna eldsneyti og menga minna, að ég hygg bæði bensín- og dísilvélar. Auðvitað er sjálfsagt að fylgjast vel með þeirri þróun. Ég hygg að væntanlegir séu á markað tiltölulega fljótlega, jafnvel hér á Íslandi, bílar með búnaði sem mengar minna en nú tíðkast. Vissulega verður fróðlegt að fylgjast með þeirri þróun þar sem eru jafnvel bílar sem geta notað sér tvenns konar orkugjafa án mikilla tilfæringa.