Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:03:22 (2217)

1999-12-03 11:03:22# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að skattaákvæðin eiga að vera í skattalögunum. En ég held hins vegar ekki að hægt sé að bera það upp á þetta frv. að í því felist mikil félagsleg aðstoð. Þvert á móti held ég að það verði gagnrýnt að slík sjónarmið muni jafnvel skorta í frv. því að afsláttarkerfið er tekið út. Eins og þingmaðurinn sagði munu menn greiða nákvæmlega fyrir þá notkun sína og þar með það slit sem þeir eru ábyrgir fyrir á vegunum. Það er auðvitað réttmætt sjónarmið að menn eigi að gera það. Það er alveg ljóst að þessir þungu bílar sem aka um vegina slíta vegum mun meira en aðrir og minni bílar og gera það reyndar, af því að fyrirspyrjandi vitnaði hér í stærðfræðilögmálin, í ákveðnu veldi sem er hlutfall af sjálfu sér, ,,exponential`` veldi, miðað við aðra bíla. Þar er náttúrlega um að ræða sérstaka hlið á þessu máli.

Ég held að við séum að reyna að gera þetta frv. og þessi lög eins hrein og hægt er. Það má kannski spyrja: Er þá réttmætt samkvæmt þessum sjónarmiðum að vera með fast gjald fyrir bíla undir 4 tonnum? Er ekki verið að veita einhverjum afslátt þar? Það mætti spyrja sig að því. En ég legg til að nefndin kanni það líka með sama hætti og önnur atriði í frv.