Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:09:16 (2221)

1999-12-03 11:09:16# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Út af þessu síðasta sem þingmaðurinn nefndi þá liggja fyrir tölur af hálfu okkar í framhaldi af athugun sem á þessu var gerð í fyrra og það er sjálfsagt að leggja hana fram --- hún er reyndar tiltæk sem þskj. --- í vinnu nefndarinnar og þá geta þingmenn velt því fyrir sér. Ég dreg sem sagt í efa þá fullyrðingu sem fram kom í lokin í máli þingmannsins. Ég tel að hann geri of mikið úr þessu atriði.

Þingmaðurinn nefndi tvö önnur atriði. Hann spurði hvort von væri á kæru út af fasta gjaldinu í neðri enda skalans að því er varðar þyngd bíla, að því er varðar bíla léttari en 4 tonn að þyngd. Það er alveg hugsanlegt að einhverjir muni telja á sér brotið með því. Ég veit það ekki. En ég tel ólíklegt að það verði atvinnubílstjórar því að þeir hafa væntanlega hag af því að borga fast gjald ef þeir eiga bíla af þessu tagi og munu væntanlega nota þá meira en hinn almenni borgari.

Ég skal ekkert um það segja hvort slíkt gæti verið í uppsiglingu. En ég beindi því áðan til þingnefndarinnar að hún liti sérstaklega á þennan þátt og óskaði jafnvel eftir því við Samkeppnisstofnun að hún skýrði sjónarmið sín að því er þetta varðar.

Þá um olíugjaldið. Það er ekki rétt að forveri minn hafi ekkert aðhafst. Hann fékk samþykkt hér lög með gildistöku á ákveðnu tímabili. Gildistökunni var síðan frestað. En að endingu var hætt við málið og lögin afnumin. Þetta kom aldrei til framkvæmda. Það er rétt.

Ég get ekki svarað því hvort ég muni flytja þingmál um olíugjald. Ég reyndi að upplýsa það eins vel og mér var unnt áðan að ég hef hug á því að láta rannsaka það einn einu sinni hvort þetta er framkvæmanlegt fyrirbæri á Íslandi. Ég hef ekki talið mig hafa fengið nógu sannfærandi rök fyrir því að það sé ekki hægt. Ég er með þetta ásamt starfsfólki mínu í ráðuneytinu til athugunar. Ég get ekkert sagt um það hver niðurstaðan úr því verður eða hvort það endar með því að hingað komi nýtt þingmál. Því miður verðum við bara að bíða og una við þetta þungaskattskerfi þangað til einhver slík niðurstaða liggur fyrir. Ég veit ekki á hvorn veginn það mundi verða.