Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:37:49 (2226)

1999-12-03 11:37:49# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:37]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að samgöngubætur eru sennilega besta byggðamálið. Samgöngubætur stytta vegi í raun, en ekki með lögum. Þær stytta vegi með framkvæmdum.

Varðandi það að fiskur sé framleiddur einhvers staðar. Þetta er ótrúleg fullyrðing sem maður heyrir aftur og aftur. Fiskur er algjörlega verðlaus á einhverjum stað úti á landi, segjum á Þórshöfn, ef enginn selur hann, enginn flytur hann og enginn verkar hann. Kerfið allt byggir á því að fiskurinn öðlast verðmæti. Það eru ekki síst söluaðilarnir sem vegna miðstýringar íslensks efnahagslífs eru staðsettir í Reykjavík, sem eiga mestan þátt í því að auka verðmæti þess fisks sem veiddur er frá Þórshöfn. Menn mega ekki gleyma því að öll keðjan frá byrjun til enda er jafngild í því efni. Og sölumaðurinn sem hækkar verðið í Bandaríkjunum um hálft prósent er ekki síður mikilvægur, kannski mikilvægastur í þessu efni, en sjómaðurinn sem upphaflega dró fiskinn úr sjó.

Ef það er svona hagkvæmt að veiða fiskinn og verka hann úti á landi, sem ég trúi alveg, þá á hann að sjálfsögðu að vera verkaður þar og hann mun verða verkaður og unninn úti á landi. Ef við hættum allri þeirri miðstýringu, sérstaklega í gegnum fjármálakerfið, sem við höfum við haft hérna í áratugi þá hef ég trú á því að atvinnulífið úti á landi blómstri þar sem margt hefur fullan rétt á sér, t.d. fiskveiðar og annað slíkt.