Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:41:44 (2228)

1999-12-03 11:41:44# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:41]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Þær breytingar sem hér eru einkum lagðar til eru að fellt verði niður þetta fastagjald sem var komið á. Ég tek alveg undir það í sjálfu sér að þetta fastagjald, þessi hundrað þúsund kall á litlar vörubifreiðir og fast gjald á tæki sem lítið eru notuð á vegum landsins, var afar óréttlátt. Þeim sem þarna áttu hlut að máli fannst hreinlega sem verið væri að refsa þeim fyrir að eiga slík tæki og nota þau heima við þó svo þau væru ekki nýtt til langaksturs á vegum. Í sjálfu sér fagna ég því þessari breytingu.

Þetta var mjög til umræðu í vor og í vetur. Afar margir létu í ljós óánægju sína og færðu til þess sterk rök. Með vísan til umræðu hér fyrr í haust um frv. um bifreiðagjöld sem hæstv. fjmrh. flutti --- þá kom þessi hundrað þúsund kall til umræðu --- tel ég að hann hafi bara brugðist nokkuð snöggt við.

Samt eru fleiri hliðar á þessu máli, þ.e. almenna skattlagningin, skattlagning á flutninga, á bíla og á vegi. Ljóst er að bílanotkun landsmanna er afar hátt skattlögð. Við erum að tala þar um tugi milljarða sem teknir eru í formi skattheimtu, annars vegar á bifreiðainnflutninginn og bifreiðaeignina sjálfa og hins vegar á notkunina.

Mig minnir að Þjóðhagsstofnun hafi athugað hvernig þessi skattlagning dreifðist á íbúa landsins. Þá kom í ljós að hún lagðist með 40% meiri þunga á einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins en þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um að þessi skattlagning, almenn skattlagning á bifreiðar og bifreiðanotkun, sé nokkurs konar félagshjálp, er algjörlega vísað á bug. Það er frekar á hinn veginn ef eitthvað er, eins og úttektir hafa sýnt fram á.

[11:45]

En það er þessi forsenda sem hér er dregin upp til þessara breytinga, þessi forsenda sem er vísað til í samkeppnislögunum. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvers konar lög þessi samkeppnislög eru. Ná þau bara til afmarkaðra einstakra þátta sem við þjóðfélagsþegnar landsins búum við? Eru þetta einhverjir afmarkaðir þættir sem samkeppnislögin ná til?

Þungaskatturinn er, eins og hér hefur komið fram, lagður jafnt á kílómetra sama við hvaða aðstæður ekið er. En er það ekki brot á samkeppnislögum að við öll skulum ekki búa við sams konar vegi? Mundi hv. þm. Pétur H. Blöndal ekki vera frekar skúffaður yfir að greiða sama verð fyrir skemmt kjötlæri og nýtt vegna þess að þau væru jöfn að þunga? Þegar við erum að greiða skatta og gjöld sem tengd eru ákveðinni notkun eða ákveðinni þjónustu, þá hljótum við að gera þá kröfu að það gjald sem við greiðum sé þá fyrir sömu gæði þjónustu eða notkunar. En það er síður en svo raunin. Gætum við því ekki á Norðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi kært til Samkeppnisstofnunar að vegir skuli vera svona misjafnir og slæmir? Og gætum við þá ekki, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, bara ákveðið með lögum að allir vegir skuli vera góðir og þar af leiðandi yrði sama skattheimta fyrir ekinn kílómetra eftir gæðum og stytting vega.

Mér fannst það ekki alveg sannfærandi hjá hæstv. fjmrh. að hækkun á þungaskatti og þungaskattur hefði ekki áhrif á vöruverð úti á landi. Skattlagning á bifreiðar og bifreiðanotkun almennt hefur það og ekki síst margfeldisáhrifin, því þegar skatturinn og aksturskostnaður allur er kominn inn í vöruverðið, þá kemur virðisaukaskattur ofan á það. Því hærri sem stofninn er, því hærra verður það gjald. Þetta er líka skattur til samneyslunnar, til ríkisins og leggst þar af leiðandi líka með misjöfnum þunga á íbúa landsins eftir því hvar þeir búa, bæði á neysluvörur, vörur og þjónustu sem flutt er til þeirra, og einnig á samkeppni þessara aðila til að koma vörum sínum á markað til höfuðborgarinnar, sem þeir höfðu engin ráð á að ákveða að varð hér. Hér varð meginmarkaðurinn og meginútflutningurinn þannig að öll slík skattheimta og margföldun hennar hefur áhrif.

Ég hef, eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum, áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á flutninga lengra til og tek undir gagnrýni eða ábendingar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að veruleg glöggvun hefði verið af því að fá jafnframt að sjá hvernig gjaldbreytingin legðist á þá flokkun bifreiða sem núna er lögð til.

Herra forseti. Þessi umræða leiðir hugann að vegamálum og vegagerðinni. Ég hef minnst á gæði veganna og það gjald sem við greiðum fyrir notkun þeirra sem er tvímælalaust brot á eða misjöfnun og leiðir til skertrar samkeppnisstöðu. Það hefði verið mjög myndarlegt að heyra hér um stóraukin framlög til vegamála, styttingu vega, tillögur um fjármögnun á jarðgöngum, tillögur um fjármögnun til að styrkja stofnvegi, safnvegi, tengivegi, sýsluvegina, fjallvegina og reiðvegina og allt saman sem við viljum líka fá að njóta. Það hefði verið myndarlegra. Ég verð að lýsa áhyggjum mínum yfir því að í fjárlagafrv. næsta árs eru engar tillögur um að auka fé til framkvæmda á þessu sviði. Þar eru engar tillögur um aukið fjármagn til jarðgangagerðar sem er þó tvímælalaust afar mikilvægt og er á stefnuskrá og lögð mikil áhersla á það í byggðaáætlun og enn fremur til stórátaks í vegamálum, ekki síst úti um hinar dreifðu byggðir landsins sem allir vita að er hið brýnasta sanngirnismál og raunveruleg aðgerð til að jafna samkeppnisaðstöðuna.

Herra forseti. Þó að þetta sé góð leiðrétting, svo langt sem hún nær, á því misrétti sem þarna er í gangi, þá sjáum við ekki hvaða áhrif hún hefur síðan á flutningana á lengri leiðum. En ég hefði gjarnan viljað sjá það hér sem tengist þessari umræðu og tengist vitund fólksins, þeirri afstöðu og þeirri umræðu sem fólk almennt úti um land hefur til skattlagningar í vegamálum, skattlagningar á notkun bifreiða og skattlagningar á flutninga, að auðvitað tengist þessi umræða beint framkvæmdum í vegamálum, gæði vega og öryggi samgangna. Þetta verður ekki slitið í sundur í umræðunni.

Herra forseti. Ég fagna 1. lið, þeim lið um að fella niður þetta fastagjald. Ég lýsi fyrirvara um það hvernig þetta kemur niður við kostnað á flutninga til og frá landsbyggðinni á lengri leiðum og ítreka áhyggjur mínar, bæði yfir hinni skertu samkeppnisstöðu dreifbýlisins til og frá aðalmörkuðum landsins og einnig yfir því að ekki skuli enn vera komnar fram neinar áætlanir eða hugmyndir um stóraukið fjármagn til samgöngu- og vegamála í landinu eins og hefur verið lofað eða gefið fyrirheit um í stefnu ríkisstjórnarinnar og Alþingis í byggðamálum.