Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:08:50 (2235)

1999-12-03 12:08:50# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nefna tvö atriði. Í fyrsta lagi spurninguna um það hvort aðilar utan ráðuneytisins hafi komið að samningu þessa frv. Ég lét þess getið í framsöguræðu minni að svo er ekki. Frv. er samið á mína ábyrgð eingöngu og hjá starfsmönnum fjmrn. Við höfum að vísu í öllu þessu ferli ítrekað rætt við hagsmunaaðilana. Það hafa verið mjög góðir og gagnlegir og upplýsandi fundir fyrir mig. Við höfum hins vegar ekki kosið að óska eftir því að þeir gæfu upp viðhorf sitt til þessa frv. núna fyrir fram. Afstaða einstakra samtaka liggur reyndar nokkuð fyrir enda hefur það margkomið fram og náttúrlega er jafnframt ljóst hvar hagsmunir aðilanna liggja í þessu. Því var sú leið farin núna að leggja frv. fram án þess en auðvitað í trausti þess að þingnefndin leiti álits þessara aðila og kanni þeirra viðhorf. Ég tel að það hefði ekki bætt neinu í sjálfu sér við vinnsluna að gera það öðruvísi að þessu sinni.

Það er rétt sem þingmaðurinn sagði að þarna var valin sú leið að fella niður afsláttinn og fara fyrri leiðina af þeim tveimur sem fram koma í skýrslu minni frá því í fyrra að mundu vera tiltækar að sama marki vegna þess að olíugjaldsleiðin er ekki framkvæmanleg eins og sakir standa.

Um hitt atriðið, þ.e. hvort afgreiða þurfi þetta mál fyrir jól. Mitt svar við því er að ég legg það algjörlega í vald nefndarinnar hvenær hún telur sig til þess búna að afgreiða málið. Ég legg ekki sérstaklega áherslu á að það verði fyrir þinghlé. Ég bendi á að næsti gjalddagi þungaskatts er 11. febrúar. Það væri auðvitað gott að koma þessu máli í gegn fyrir þann tíma.

Ég bendi á að mínar skyldur í þessu eru að leggja frv. fyrir þingið. Það hef ég gert. En að öðru leyti hefur ríkissjóður ekki sérstakra hagsmuna að gæta vegna þess að tekjuöflun hans er tryggð hvort sem núverandi kerfi heldur áfram eða þetta kerfi tekur við. Þess vegna bera fyrst og fremst aðrir skaðann af því ef þetta mál nær ekki fram að ganga.