Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:13:26 (2237)

1999-12-03 12:13:26# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að þetta mál sé Alþingi til skammar. Alþingi hefur reynt að gera nokkrar tilraunir til að sætta ósamrýmanleg sjónarmið. Það hefur augljóslega ekki tekist frekar en vænta mátti kannski.

Að því er varðar samráð mitt við hagsmunaaðila í þessu máli þá hefur það verið mjög mikið síðastliðið eitt og hálft ár. Ég held að ég hafi tæpast eytt meiri tíma í að tala við hópa og hagsmunaaðila en þá sem koma að þessu máli með ýmsum hætti, þ.e. langflutningamenn, vörubílstjóra, sérleyfishafa og útgerðarmenn rútubíla af ýmsu tagi o.fl. sem starfa að þessum málum, m.a. innan samtaka landflutningamanna. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt hvernig að þessu hefur verið staðið og ekkert undan því að kvarta.

Að því er Samkeppnistofnun varðar þá hefur þetta mál ekkert verið borið undir hana. Hennar niðurstaða liggur alveg fyrir. Hún sendir ráðuneytinu þau tilmæli að við flytjum um þetta nýtt þingmál, eins og nú hefur verið gert. Ég tel að þetta þingmál sé í fyllsta samræmi við ábendingar hennar. En við hefðum auðvitað líka getað látið það eiga sig og tekið þá áhættu af því að einhver hefði hugsanlega farið í dómsmál. Það er náttúrlega hægt að gera það, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á. Menn geta auðvitað látið á þessa hluti reyna fyrir dómstólum. En ég tel hins vegar að þetta sé í alveg eðlilegum farvegi gagnvart Samkeppnisstofnun. Þó ítreka ég það sem ég sagði áðan, að það er ekki óeðlilegt að þingnefndin kanni hvaða augum Samkeppnisstofnun lítur það fastagjald sem eigendur bíla undir 4 tonnum að þyngd eiga kost á að velja sér, með tilliti til afstöðu stofnunarinnar til fastagjalds sem miðaðist við 95 þús. km. Ég tel eðlilegt að nefndin afli þeirra upplýsinga.