Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:15:50 (2238)

1999-12-03 12:15:50# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mig langar að nefna nokkur atriði sem varða þetta mál. Samkeppnisstofnun gerði athugasemd við núgildandi lög og því er þetta frv. komið fram. Samkeppnisstofnun tekur hins vegar eingöngu tillit til reksturs bifreiðanna, tekur ekki til annarra þátta sem við á hinu háa Alþingi þurfum að horfa á líka. Eins og komið hefur fram er ekki nóg að horfa á kílómetramælinn og lesa af honum. Vegirnir sem ekið er eftir skipta líka máli. Þegar talað er um jafnrétti og jafna stöðu þá verður einnig að horfa til veganna, samgönguæðanna í landi okkar. Það er ekki hið sama að reka bíl sem ekið er á malbikuðum vegum og þann sem fer langar leiðir á misjafnlega góðum malarvegum. Hvernig sem við finnum leið til að jafna aðstöðu manna, ekki bara varðandi kílómetrafjöldann sem ekinn er heldur einnig að til að reka bíl við mismunandi aðstæður þá verðum við að skoða þessi mál virkilega vel.

Ég er ekki undrandi á því að þessi skattur hafi verið tekinn til umfjöllunar í þinginu hvað eftir annað og mönnum hafi reynst erfitt að finna hinn gullna meðalveg. Í málinu stangast hagsmunir aðila svo sannarlega á og hér á hv. efh.- og viðskn. erfitt verk fyrir höndum. Ég tek undir að rétt sé að kalla eftir þeim gögnum sem geta varpað skýrari ljósi á málið, m.a. gögn sem hugsanlega geta sýnt hvort sú breyting sem hér er lögð til hafi áhrif á vöruverð á landsbyggðinni. Það skiptir miklu máli að breytingar sem gerðar eru á skatti af þungaflutningum bitni ekki á vöruverði úti á landi.

Hér hefur komið fram að það er munur á vöruflutningum, landflutningum, og þungaflutningum eins og malarflutningum. Hvort hægt er að greina milli mismunandi flutninga í lögunum efast ég um miðað við reglur Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs. Þegar við tökum ákvarðanir um þetta mál verður að hafa í huga að það er mikill munur á landflutningum með nauðsynjavörur og malarflutningum. Þróunin hefur orðið þannig að allar vörur eru fluttar landleiðina. Flutningur sjóleiðina hefur nær lagst af.

Það má kannski segja, þó það falli ekki undir þessi lög, að e.t.v. væri sterkasta jöfnunaraðgerðin, sem jafnframt mundi fullnægja reglum samkeppnisráðs, að einhenda sér í stórátak í vegagerð, ljúka við að byggja upp hringveginn og malbika, ganga frá vegakerfi landsins þannig að flutningar séu sambærilegir milli byggðarlaga.