Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:27:58 (2240)

1999-12-03 12:27:58# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að skoða allar góðar hugmyndir í þessu efni. En ég sé strax verulega meinbugi á þeirri hugmynd sem hér hefur verið hreyft af hálfu þingmannsins. Menn mega ekki gleyma því að lögin sem hér um ræðir heita lög um fjáröflun til vegagerðar og þungaskattstekjur renna í þann farveg. Ég hygg að það mundi þykja óeðlilegt að skattleggja til að mynda fiskiskipaflotann eins og þingmaðurinn nefndi, þó ekki sé nema um hugsanlega 20 aura á hvern lítra, og láta það fjármagn renna beint til vegagerðar. Það má vel vera að taka þyrfti upp allt kerfi markaðra tekjustofna í þessu sambandi að því er varðar vegamálin, ég skal ekki segja um það. Ég er hræddur um að ýmsum þætti þetta óeðlilegt.

Við höfum nokkrum sinnum á haustþinginu rætt um umhverfis- og mengungargjöld. Ég ætla ekki að taka þá umræðu upp á nýtt. Ég vek hins vegar athygli á því sem ég sagði fyrr í umræðunni. Það er auðvitað mjög mikil framþróun í framleiðslu véla sem nota bensín og dísileldsneyti til að takmarka þá mengun sem vélarnar skila frá sér. Þarna er um að ræða mjög öra framþróun sem stefnir að því að minnka þessa mengun og gera starfsemina hreinni en hún er í dag. Það er að sjálfsögðu hið besta mál, tækniþróun mun að sjálfsögðu skipta miklu fyrir umhverfisþátt málsins.