Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:29:47 (2241)

1999-12-03 12:29:47# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sannfærður um að ef gerð yrði athugun á því hvort næmi hærri fjárhæð, tekjur sem þungaflutningar um þjóðvegi landsins færa Vegasjóði í formi þungaskatts eða útgjöldin sem sjóðurinn hefur af þeirri sömu umferð þá mundi tapið vera meiri en hagnaðurinn. Hver og einn af þessum þungu bílum með aftanívagni er talinn slíta vegunum á einni ferð eins og 10.000 fólksbílar. Á þessum veiku vegum úti á landsbyggðinni, t.d. þar sem ekki er varanlegt slitlag, nægir að einn slíkur bíll aki um þá vegi í rigningartíð til þess að þeir séu á eftir næstum ófærir venjulegum fólksbifreiðum. Ég er sannfærður um að ef þessi mál væru gerð upp þá kosti hinir niðurgreiddu landflutningar Vegasjóð meira en nemur tekjunum af þeim.

Það vandamál sem hæstv. fjmrh. ræddi um, að ekki þætti eðlilegt að tekjur af innheimtu dísil- eða olíugjalds af öðru en umferð um vegi yrði notuð í Vegasjóð, er harla auðvelt að leysa. Það má einfaldlega gera með því að fella niður þennan fasta tekjustofn Vegasjóðs og taka í staðinn upp innheimtu slíkra gjalda beint í ríkissjóð. Síðan tækju ríkisstjórnin, Alþingi og fjárln. ákvörðun um að hve miklu leyti Vegasjóði yrðu bættar þær tekjur. Það skiptir ósköp litlu máli hvort peningarnir renna í hægri vasann á jakka hæstv. fjmrh., í vinstri vasann eða í brjóstvasann. Þetta endar allt saman í sama jakkanum.