Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:39:10 (2243)

1999-12-03 12:39:10# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. hæstv. viðskrh. þar sem óskað er eftir heimild Alþingis til að ríkissjóður geti selt um 15% hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka. Af því sem fram kemur í grg. með þessu frv. virðist mikið liggja á að koma þessum 15% í sölu og er reiknað með að það geti gerst í þessum mánuði, þ.e. sama mánuði og hæstv. ráðherra leggur frv. fyrir þingið.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta nokkuð stórt mál. Ég tel það lítilsvirðingu við þingið að ætla því örfáa daga til þess að afgreiða málið. Maður hlýtur að ætla að nokkurn undirbúning þurfi og tíma til fyrirhugaðar sölu eftir að málið hefur verið afgreitt sem lög frá þinginu. Ráðherrann ætlar væntanlega þinginu örfáa daga til að afgreiða það.

Ég vil byrja á því af því að í fjölmiðlum hefur komið fram að hæstv. ráðherra telur --- það er sögð ein ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt nú --- að þetta muni slá verulega á þensluna. Vissulega er mikil þensla í þjóðfélaginu, verðbólgan komin á skrið og ástæða til að taka á því máli en ég er ekki viss um að ráðherrann sé hér að fara þá leið sem þarf í því efni. Ég held að ákaflega hæpið sé að halda því fram að þessi leið slái á þensluna. Ef það sem ráðherrann er að tala um gengur eftir þá þurfa einhverjir neytendur að draga úr neyslu sinni til að kaupa hlutabréf eða fyrirtæki að draga úr fjárfestingu. Ég held að miklu fremur sé hægt að álykta að andvirði sölunnar komi að mestu í stað annars sparnaðar sem ella hefði orðið. Það er kannski líka rökréttast við mat á áhrifunum að ætla að almenningur taki lán fyrir kaupunum í von um hagnað og aukin lántaka er ekki það sem við þurfum á að halda núna.

Gerist það að þeir sem ætla sér kaup á þessum hlutabréfum taki lán í miklum mæli þá ýtir það undir þensluna í þjóðfélaginu, ekki síst ef þeir innleysa fljótlega hugsanlegan hagnað sem síðan yrði notaður til meiri einkaneyslu. Síðan er líka spurningin hvernig ríkisstjórnin ætlar að ráðstafa andvirðinu. Það skiptir miklu máli. Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Við erum að tala um 5--6 milljarða. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ráðstafa andvirði þessa hlutar? Það skiptir miklu máli. Á að greiða niður frekari skuldir? Á að nota það til þess að minnka hallann á fjárlögum eða á að nota andvirðið í eyðslu? Við þurfum auðvitað að fá það upp við þessa umræðu.

Einnig er spurning hvort þessi tímasetning sem hér er að stefnt sé rétt, þ.e. að selja hlutabréfin í þessum mánuði. Ég spyr hæstv. ráðherra: Var haft samráð við aðila á fjármálamarkaði eða Seðlabankann um þessa tímasetningu til að kanna hvort hún væri rétt? Sumir hafa í því sambandi, þegar verið er að ræða hvort tímasetningin sé rétt, bent á hugsanlegan 2000-vanda á fjármálamarkaði svo dæmi sé tekið. Það virðist regla fremur en undantekning þegar farið er fram á sölu á hlut úr fjármálastofnunum sem ríkið á, að lítið liggur fyrir hjá hæstv. ráðherra um áhrifin af sölu á hlutabréfanna. Þó er það grunnforsenda fyrir því að hægt sé að taka ákvörðun um hvort rétt sé að fara í slíka sölu. Ég spyr: Hefur yfirleitt farið fram úttekt á almennum áhrifum þessarar sölu á fjármagnsmarkaðinn? Á vaxtastigið, á samþjöppun valds á fjármálastofnunum o.s.frv.

Ég held að staðreyndin sé sú að stefnumörkun um fjármálamarkaðinn vanti og um einkavæðinguna almennt. Ég spyr: Hvaða áætlanir liggja fyrir um einkavæðingu banka og annarra fjármálastofnana? Liggur fyrir einhver áætlun um það? Ég held að það sé óhætt að segja að allt of mikið sé um að handahófskenndar ákvarðanir hafi ráðið sölu á fjármálastofnunum án þess að heildstæð stefnumótun hafi verið gerð fyrir fjármagnsmarkaðinn í heild eða leikreglur settar sem hann á að lúta. Við höfum nú farið yfir það í haust að nauðsynlegt sé að setja fjármálamarkaðnum leikreglur.

Við þekkjum það að fjárfestar hafa á rúmu ári hagnast á ríkiseignum við sölu á fjármálastofnunum um rúma 30 milljarða með kaupum á hlutabréfum í FBA, Landsbanka og Búnaðarbanka. Nýlega kom fram að fjárfestar sem keyptu 51% hlut ríkisins í FBA hefðu hagnast um 1.265 millj. á tíu dögum. Maður veltir auðvitað fyrir sér, þegar svona stórtækar breytingar verða, að hagnaður af þessum bönkum er um 30 milljarðar á ári, hvort bankarnir hafi verið seldir á undirverði. Liggja fyrir einhverjar fyrir fram mótaðar áætlanir um sölu á ríkisbönkunum? Ég held að þær liggi ekki fyrir. Ráðherrann svarar því þá hér á eftir.

[12:45]

Þrátt fyrir allt á að keyra í gegnum Alþingi á skömmum tíma sölu á 15% hlut í Landsbankanum og Búnaðarbankanum fyrir um 6 milljarða kr. Maður spyr: Af hverju liggur svona mikið á? Liggur að baki þessu einhver ákvörðun eða samkomulag milli stjórnarflokkanna? Hafa þeir náð saman um að skipta bönkunum á milli sín með sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka annars vegar og Búnaðarbanka og Fjárfestingarbankans hins vegar? Um þetta er talað og við köllum auðvitað eftir upplýsingum um það hér á þinginu. Mér kæmi ekki á óvart að undirliggjandi í þessu væri að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um hvernig brjóta eigi niður ríkisbankana þannig að þeir passi í ginið á kolkrabbanum, svo vitnað sé í orð sem hæstv. viðskrh., þá óbreyttur þingmaður, viðhafði 1992. Þá var hann greinilega á móti öllu því sem hæstv. viðskrh. Finnur Ingólfsson aðhefst nú í ráðherrastól. Loksins þegar bankarnir skila hagnaði, en í grg. með frv. er sagt að samanlagður hagnaður bankanna hafi verið 1.600 millj. 1998 og 1.300 millj. á fyrri hluta þessa árs, á að selja þá. Þegar þeir eru farnir að skila talsvert miklum hagnaði í ríkissjóð og fyrir skattgreiðendur þá liggur mikið á að koma þeim í hendur kolkrabbans og smokkfisksins.

Ég spyr: Hvert var meðlagið með Landsbankanum sem skattgreiðendur þurftu að standa undir fyrir nokkrum árum þegar illa gekk í þeim banka? Þá var Landsbankinn á framfæri skattgreiðenda. Það er auðvitað eftir öðru að þegar kýrin er farin að mjólka þá á að selja hana, þjóðnýta tapið og einkavæða gróðann. Þannig fer þessi ríkisstjórn að, hún vill þjóðnýta tapið og einkavæða gróðann.

Þegar ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélag í maí 1997 sagði viðskrh. orðrétt:

,,Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagabankanna er miðað við að ríkissjóður selji ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.``

Enn vantar eitt og hálft ár upp á þennan tíma. Engar áætlanir liggja fyrir um framkvæmd á einkavæðingu bankanna og engin heildstæð stefnumótun liggur fyrir um fjármagnsmarkaðinn eða leikreglur sem hann á að lúta. Ekkert liggur fyrir um hvernig ríkið hyggst selja afganginn af hlutabréfum sínum í Landsbanka og Búnaðarbanka. Ég spyr: Er stefnan sú að selja allan hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka? Ef svo er, hvaða áætlanir liggja fyrir um söluna? Á henni að vera lokið á einu ári, tveimur árum, þremur árum, á kjörtímabilinu? Hvers getum við vænst í þessu efni? Þetta eru allt eðlilegar spurningar sem nauðsynlegt er að þingmenn fái svör við nú við umfjöllun þessa máls á þinginu.

Þegar rætt er um heildstæða stefnumörkun fyrir fjármálamarkaðinn þá veltir maður fyrir sér: Hvað er rétt, eðlilegt og skynsamlegt að gera varðandi þróunina á fjármálamarkaðinum? Er t.d. rétt að ríkið eigi um einhvern tíma áfram meiri hlutann í a.m.k. einum bankanum? Þetta er nokkuð sem menn þurfa að velta fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt og eðlilegt. Erum við ekki, með sölu t.d. á bönkunum að fullu, að missa þetta í hendurnar á voldugum aðilum og stuðla að mikilli samþjöppun valds og fjármagns. Það væri mjög slæmt vegna þess að við þekkjum að mikil samþjöppun á valdi og fjármagni hefur átt sér stað í stórum atvinnugreinum, hjá tryggingarfélögunum, olíufélögunum og í flutningastarfsemi. Það væri í hæsta máta óeðlilegt ef þeir sömu og búa nú þegar við mikla samþjöppun valds yrðu ráðandi í bankastofnunum. Það hlýtur að vera mjög óheilbrigt fyrir allan fjármálamarkaðinn. Þetta er spurning sem hlýtur að koma upp og ég spyr ráðherrann hvort hann hafi mótað afstöðu sína til þess.

Er það ekki eðlilegt, meðan við sjáum hvernig þróunin á markaðnum verður vegna þess að fjármálamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma, að við stöldrum aðeins og höldum a.m.k. öðrum bankanum í meirihlutaríkiseign um eitthvert árabil? Reyndar þarf ég varla að hugsa mig um. Ég tel það rétt, eðlilegt og skynsamlegt. Ég vil fara hægar í þessu efni. Með aðvörunarorðum mínum er ég alls ekki að segja að ég sé á móti því að selja hluti úr bönkunum. En ég vil fara varlega, fá áætlanir og fá að meta áhrifin. Ég tel það skynsamlegt og a.m.k. annar bankinn á að vera í meirihlutaríkiseign um einhvern tíma.

Ég spyr líka: Hver er afstaða hæstv. viðskrh. til sameiningar banka eins og t.d. Íslandsbanka og Landsbanka? Það væri mjög gott að fá það fram. Ég held, miðað við hvernig staðið er að sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins, að opnað sé fyrir þann möguleika að bankakerfið komist allt í hendur fjársterkra aðila í þjóðfélaginu á skömmum tíma. Mér sýnist á vinnubrögðum ráðherrans hingað til að hann hafi ekki mjög miklar áhyggjur af valdasamþjöppun hjá fjármálastofnunum.

Ég tel að ráðherrann þurfi að svara því hvort fyrir liggi drög að útboðslýsingu, hve mikið á að selja almenningi af þessum 15% hlut? Hve mikið á að fara í tilboðssölu? (Viðskrh.: Ég sagði frá því.) Fyrirgefðu, þá hefur það farið framhjá mér. Getur ráðherrann svarað því hér úr sætinu? (Viðskrh.: 1/3 í tilboði, 2/3 í áskrift.) Þá liggur það fyrir, 1/3 í tilboðssölu og 2/3 í áskrift. Hvaða markmið á að setja um hámarkskaup hvers og eins? Liggur það líka fyrir?

Í grg. kemur fram að viðskrh. taki ákvörðun um útfærslu sölunnar að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Liggja þær ákvarðanir allar fyrir sem þurfa að liggja fyrir áður en til sölunnar kemur? Og ef ekki, munu þær liggja fyrir áður en frv. verður afgreitt frá Alþingi?

Ég vil verja þeim mínútum sem ég á eftir til þess að ræða aðeins um það sem ráðherrann hefur rætt um og ég kom að í upphafi máls míns, þ.e. útlánastefnu bankanna og þensluna. Það liggur ljóst fyrir og ráðherrann getur varla mótmælt því að 35% aukning á hlutafé í Landsbanka og Búnaðarbanka á sl. ári átti mikinn þátt í gífurlegri útlánaaukningu hjá bönkunum. Útlánaaukning hjá bönkunum er mjög mikil vegna þess að samkvæmt svari sem ég hef fengið frá ráðherra (Gripið fram í.) var hlutafjáraukning á sínum tíma ... (Gripið fram í.) Var hún 15%? Akkúrat, það hefur átt mikinn þátt í útlánaaukningu hjá bönkunum. Útlán innlánsstofnana hafa tvöfaldast hjá einstaklingum frá árinu 1995 fram í september 1999, aukist úr 62 milljörðum í 122 milljarða. Hjá fyrirtækjum hafa þau aukist úr 122 milljörðum í 243 milljarða. Þetta er tvöföldun á útlánum. Hefur ráðherrann engar áhyggjur af þessu? Á sama tíma og þessi gífurlega útlánaaukning á sér stað dregst eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og sparisjóða saman. Á sama tíma og bankarnir eru á blússandi ferð í útlánunum sem ýtir undir þenslu á verðbólgu dregst eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og sparisjóða saman. Þannig hefur eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og sex stærstu sparisjóðanna lækkað úr 10,6% árið 1995 í 9,3% í júní 1999.

Þáttur víkjandi lána hefur einnig verið að aukast en eiginfjárhlutfall án víkjandi lána var 9,4% hjá viðskiptabönkum og sex stærstu sparisjóðunum árið 1995 en var komið í 6,9% í júní á þessu ári. Samkvæmt lögum er miðað við að eigið fé fari ekki undir 8% á móti skilgreindum áhættugrunni. Ég tel að þessi þróun sé mjög áhættusöm og veiki stoðir bankakerfisins meira en hætta er á takandi. Ég tel að það eigi tafarlaust að herða reglur um hlutfall eigin fjár og gefa Fjármálaeftirlitinu svigrúm með lögum til að ákveða eiginfjárhlutfall banka og sparisjóða.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því að sett verði í lög að Fjármálaeftirlitið fái heimild til þess að ákveða eiginfjárhlutfall hjá bönkunum, sem getur verið mismunandi eftir bönkum, sparisjóðum o.s.frv.? (Viðskrh.: Já.) Svarið er já. Ég fagna þessu mjög og þá spyr ég: Eigum við von á frv. sem gefur Fjármálaeftirlitinu þessa heimild? Er ráðherrann tilbúinn til þess að beita sér fyrir breytingu á eiginfjárhlutfallinu? Hvenær megum við vænta þess að fá slíkt frv. inn í þingið? Ég fagna mjög þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra.

Síðan vil ég fara aðeins inn á hlutabréfaeignina. Hún hefur heldur betur aukist hjá landsmönnum. Við erum að tala um að frá 1995 hafi hlutabréfaeign aukist úr 63 milljörðum í 209 milljarða. Frá 1994, þá er hlutabréfaeign um 43 milljarðar eða tæplega 44 en í árslok 1998 209 milljarðar á verðlagi ársins 1998, hefur hlutabréfaeignin fimmfaldast. Ég held að það sé ástæða til að fá mat á áhrifum þessa öra vaxtar í hlutabréfaeign. Hverju getum við búist við varðandi gengi á hlutabréfunum? Ég tel ástæðu til þess að skoða það.

Það er líka ástæða til þess, herra forseti, að draga inn í þessa umræðu skuldir heimilanna. Framsfl. hafði miklar áhyggjur af skuldum heimilanna þegar hann var utan ríkisstjórnar á árunum 1992--1995 og vildi iðulega fá utandagskrárumræðu um það málefni. Skuldir heimilanna hafa aukist um 144 milljarða kr. frá 1995 og eru núna 477 milljarðar. Það eru sem sagt 7,2 millj. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Í niðursveiflunni á árunum 1988--1992, þegar Framsfl. var að býsnast yfir skuldum heimilanna, á því fjögurra ára tímabili var aukningin þó ekki nema 118 milljarðar. Frá árinu 1995 hafa skuldir heimilanna hafa aukist um 144 milljarða. Það eru 44%, þ.e. um mitt þetta ár eru það 44% umfram áætlaðar ráðstöfunartekjur heimilanna á þessu ári. Ég spyr hæstv. viðskrh. og mér finnst eðlilegt að hann svari því í þessari umræðu: Hefur hann engar áhyggjur af þessari miklu þenslu og skuldastöðu heimilanna? Það er mikið framboð af peningum og skilmálarnir eru þannig að fólk þarf, ef það kaupir bíl o.s.frv., ekkert að leggja fram. Menn fá bílana lánaða til átta ára. Hið athyglisverða við skuldir heimilanna er að eignaaukning heimilanna varð helmingi minni en skuldir frá árinu 1995 eða um 62 milljarðar. Þar af varð eignaaukningin meiri í bílum en íbúðum. Af þessari 62 milljarða kr. eignaaukningu frá 1995 voru 34 milljarðar í bílaeign og 28 milljarðar í íbúðum. Á hvaða ferð erum við í þessu þjóðfélagi? Hæstv. ráðherra hlýtur að verða að ræða þessa stöðu við þessa umræðu ásamt því að svara þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann og lúta beint að því frv. sem hér er til umræðu.