Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:59:34 (2244)

1999-12-03 12:59:34# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:59]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að hér er um stórt mál að ræða. Málið mun ráðast mjög af því hverjar viðtökur þingsins verða, hve hratt það fer í gegnum þingið. Ég geri mér algerlega grein fyrir því.

[13:00]

Það er ekki oft sem ég og hv. þm. erum sammála í bankamálum, það hefur umræða undangenginna ára kannski staðfest, en ég var alveg hjartanlega sammála ræðu hv. þm. hér áðan og deili áhyggjum hennar hiklaust yfir þeirri miklu þenslu sem er. Það er alveg klárt og rétt hjá hv. þm. að bankarnir eiga þar mjög mikla sök, ég dreg ekkert úr því. Við horfum á útlánaaukninguna í bankakerfinu sem orðið hefur og hún er m.a. til komin vegna þess að ríkisviðskiptabankarnir tveir sem svo voru kallaðir, bæði Landsbanki og Búnaðarbanki, fengu rúmar heimildir frá Alþingi á sínum tíma þegar við tókum þá ákvörðun að auka hlutafé í bönkunum um 15% til þess að þeir gætu stækkað. Sú aukning fór að stórum hluta til, ef ekki að langstærstum hluta til, í viðbótarútlán bankanna til þess að þeir mundu stækka.

Eins og hér kom fram hefur viðskrh. heimild til að auka enn frekar hlutafé í bönkunum, allt upp í 35%, og þarf ekki heimild Alþingis til þess. Þess vegna kemur þetta frv. hér fram af því að ég hef þær áhyggjur og ríkisstjórnin einnig, að við viljum ekki fara þá leið að auka hlutaféð til þess að gefa bönkunum tækifæri til að stækka heldur viljum við selja af hlut ríkisins til að draga úr þenslunni með því að fólk bindi peningana sína, vonandi til lengri tíma, í þessum fyrirtækjum. Gangi það eftir erum við að ná árangri á þessu sviði.

Varðandi það hvort samráð hafi verið haft við aðila á markaði um þetta, þá var það formlega séð ekki haft, en við vitum að markaðurinn bíður eftir því að fá ný hlutabréf í sölu.