Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:03:57 (2246)

1999-12-03 13:03:57# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:03]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Jú, jú, það er auðvitað alveg sjálfsagt. Hv. þm. hefur spurt hér fjölda spurninga og ég mun reyna að svara þeim öllum og ég vonast til að hafa svör við þeim. En það kann vel að vera að okkur greini á um hver þau svör nákvæmlega eru.

Til að svara þeirri spurningu nú, af hverju liggi svona mikið á, þá vil ég segja að þegar við buðum út á sínum tíma og settum bankana á verðbréfamarkaðinn var gert ráð fyrir að 25% hlutafé bankanna yrði að vera í eigu annarra aðila en ríkissjóðs fyrir 1. júní árið 2000 til að uppfylla þær kröfur sem Verðbréfaþingið gerir. Nú er ekkert óskaplega langur tími í það og ég sé ekki fram á að eitthvert lát verði á þeirri þenslu sem núna er svo um muni fyrir mitt næsta ár. Þess vegna þarf heimildir frá þinginu ef við erum sammála um að betra sé að selja en að auka hlutafé. Og tækifærið og tíminn er akkúrat núna og þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi held ég að hægt sé að fá hærra verð en nokkru sinni fyrr fyrir bréfin. Í öðru lagi vitum við að einmitt þessa stundina er frekar fátæklegt framboð á bréfum á markaðnum eins og staðan er. Ég undirstrika að við leituðum ekki formlega til nokkurs aðila. Af því hv. þm. spurði um Seðlabankann í þeim efnum, þá spurðum við ekki Seðlabankann. Við töluðum óformlega við Verðbréfaþingið og fengum það þá á tilfinninguna og það staðfest að ekki væru nein stór útboð fram undan, þess vegna gæti þetta gengið og hentað í sjálfu sér mjög vel að fá þessi bréf á markaðinn akkúrat núna. Því er þessi tími valinn og því liggur svo mikið á, en auðvitað vil ég að málið sé skoðað af mikilli vandvirkni. Ég skal svara því á eftir hvaða áherslur ríkisstjórnin er með um frekari sölu, sem engin áform eru uppi um. Ég tel að komið sé að hagræðingaraðgerðum á markaði sem eigi að geta skapað fólki og fyrirtækjum í landinu sambærilegan kostnað á fjármagnsmarkaði og fólk og fyrirtæki í löndunum í kringum okkur býr við. Ég skal svara þessu öllu frekar á eftir.