Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:06:05 (2247)

1999-12-03 13:06:05# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. En það er tvennt sem vekur athygli mína núna í svari hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin telji enga ástæðu eða hafi ekki talið ástæðu til þess áður en málið kom til þingsins að leita til Seðlabankans um að fá mat bankans á þessu sem á þó að vera aðalráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Það vekur furðu mína.

Í öðru lagi hvað varðar Verðbréfaþing og kröfu Verðbréfaþings um að þetta sé sett fram út af kröfu Verðbréfaþings um 25%, ef ég skil rétt, sem þurfi að vera í dreifðri eign, þá spyr ég: Var þingið leynt þessu á sínum tíma, fyrir ári síðan? Ég man ekki eftir að þetta hafi komið fram í umræðunni. (Viðskrh.: Þetta er í útboðslýsingunni.) Ég man ekki eftir að það hafi nokkuð komið fram í umræðunni þegar við vorum að ræða þetta mál fyrir rúmu ári síðan, að það væri krafa sem þessu fylgdi um að það yrði að vera búið að selja á svona stuttum tíma, einu eða einu og hálfu ári, því sem nemur 25% og að það færi í dreifða eignaraðild. Ég man ekki eftir að um það hafi verið rætt heldur stóð það í frv. ráðherrans, ef ég man rétt og ætla þá bara að athuga það, að engin áform væru um að selja úr bankanum á næstu fjórum árum. Um það var rætt og það var það sem stóð upp úr.

Þess vegna þarf að skoða það vandlega hvort þingið hafi verið leynt þessum upplýsingum sem nú eru að koma fram og eru ástæðan fyrir því að svo mikið liggur á að selja þennan hlut úr bankanum.