Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:56:03 (2256)

1999-12-03 13:56:03# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það var ánægjulegt að heyra hjá hæstv. félmrh. að hans mat á því hvað er stærsti efnahagsvandi þjóðarinnar er ekki samhljóma hæstv. forsrh. Ég vil taka undir með hæstv. félmrh. að hinir miklu þjóðflutningar innan lands eru að sjálfsögðu ein meginorsök þess vanda sem hér er um rætt varðandi tekjur sveitarfélaga.

Hins vegar er mikilvægt að rifja upp í þessu samhengi að undirritaðar hafa verið yfirlýsingar sameiginlega af sveitarfélögunum og ríkisstjórninni, af hæstv. félmrh. og fjmrh., fyrst árið 1996, um að bætt yrði fyrir þá tekjuskerðingu sem orðið hefur vegna breyttra skattalaga. Og aftur árið 1997 var undirrituð hliðstæð yfirlýsing sömu aðila þar sem umræddu mati var frestað og jafnframt ákveðið að meta fleiri skattalagabreytingar sem þá höfðu komið til framkvæmda, m.a. skattfrelsi lífeyrisiðgjalda.

Herra forseti. Engir fyrirvarar voru í þessum yfirlýsingum um að þessi tekjuskerðing yrði ekki bætt ef hagvöxturinn næði tilteknu marki. Sameiginleg nefnd ríkis og sveitarfélaga komst að þeirri niðurstöðu 16. ágúst sl. að breytingarnar hefðu leitt til þess að sveitarfélögin verða árlega af tekjum sem nema um 2 milljörðum kr. vegna umræddra skattalagabreytinga.

Herra forseti. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga hefur m.a. látið þess getið að það verði prófraun á samstarf ríkis og sveitarfélaga að við þessar yfirlýsingar verði staðið. Þess vegna vil ég vitna til formanns Sambands ísl. sveitarfélaga sem segir m.a., meðð leyfi forseta:

,,Niðurstaða í því máli`` --- þ.e. að þetta verði greitt --- ,,er í raun prófsteinn á það hvort samskipti ríkis og sveitarfélaga verða með eðlilegum hætti á næstu missirum.``