Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:58:15 (2257)

1999-12-03 13:58:15# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að það komi fram, m.a. í ljósi ummæla síðasta ræðumanns og einnig framsögumanns, að það er engin sameiginleg niðurstaða að sú fjárhæð sem þarna er um að ræða sé einhverjir 2 milljarðar. Niðurstaðan er sú að það hafi hallað á sveitarfélögin. En það liggur ekkert fyrir og það er mjög umdeilt og umdeilanlegt hvernig slíkt er metið. Svo segir ekkert um það í þessum tilvitnuðu yfirlýsingum sem hv. þm. nefndi að það eigi að bæta þetta með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það stendur ekki. Það er hægt að auka tekjumöguleika sveitarfélaganna án þess að þær tekjur komi úr ríkissjóði.

Að því er varðar eignarskatta þá lét framsögumaður þess getið að ríkissjóður væri nú að ganga á lagið og heimta inn jafnháa fjárhæð í eignarsköttum og sveitarfélögin eru að gera með hækkun fasteignamats. Þetta er algjör misskilningur. Eins og þingmaðurinn veit náttúrlega þá er eignaskattsstofninn hrein eign en ekki lagður á með sama hætti og fasteignagjöld sveitarfélaganna, nettóeign sem sagt, og þar við bætist að inn í það spilar ónýttur persónuafsláttur og fleiri slík atriði sem gera það að verkum að ekkert er um það að tala að ríkissjóður fái einhverjar óeðlilegar breytingar á þessu umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Að því er varðar fasteignaskattsmálið að öðru leyti þá er það rétt sem fram kemur að við höfum gefið fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að gera þar breytingu á kjörtímabilinu. Það mál er nú í höndum tekjustofnanefndarinnar. Ég vona að tillögur komi þaðan á næsta ári þegar hún lýkur sínum störfum. Það er ekki raunhæft að gera ráð fyrir því og var auðvitað aldrei raunhæft að gera ráð fyrir því, enda gerði það enginn okkar í stjórnarliðinu, að slík breyting gæti tekið gildi núna um áramótin.

Herra forseti. Að öðru leyti vil ég segja að kominn er tími til, held ég, að gera nokkuð róttækar breytingar á þessum tekjustofnamálum sveitarfélaganna og það á að rýmka að mínum dómi frelsi þeirra til þess að ákveða sín eigin gjöld verulega frá því sem nú er. Sveitarstjórnarmenn eru kjörnir af almenningi eins og við þingmenn. Þeir eiga sjálfir að eiga völina og kvölina í þeim efnum.