Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:03:10 (2259)

1999-12-03 14:03:10# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er ekki rétt að ríkið hafi ekki staðið við samninga sína við sveitarfélögin varðandi yfirtöku grunnskólans. Samkvæmt útreikningum sveitarfélaganna sjálfra, hagdeilar Sambands ísl. sveitarfélaga, hefur á fyrstu fjórum árunum eftir að sveitarfélögin tóku við grunnskólanum fylgt með honum frá ríkinu milljarði meira en um var samið. Hitt er svo annað mál að sveitarfélögin hafa tekið við grunnskólanum með miklum metnaði og varið í hann meiri peningum en lagaleg skylda bauð.

Það er ekki rétt að segja að ríkið hafi skert tekjustofna sveitarfélaganna. Það er réttara að segja að tekjur sveitarfélaganna hefðu vaxið enn þá meira en um þessa 8,5 milljarða síðan 1997 ef lagabreytingar hefðu ekki komið til. Það er mergurinn málsins.

Skattlagningarvaldið er hjá Alþingi. Það má ekki leggja á skatta nema með heimild Alþingis og útsvarsprósentan er ekki alls staðar fullnýtt. Ég hef talað fyrir því síðan ég kom í félmrn. að sveitarfélögin notuðu heimilaða útsvarsprósentu fremur en þau séu rekin með halla. Ég tel að það sé farsælla. Tekjustofnanefndin er að störfum og ég ber fyllsta traust til hennar. Þar eiga þingmenn sæti og einn reyndasti sveitarstjórnarmaður stjórnarandstöðunnar á m.a. sæti í þeirri ágætu nefnd.

Varðandi væntingarnar þá geta sveitarfélögin auðvitað ekki uppfyllt væntingar allra. Sveitarfélögin þurfa að sjálfsögðu að sýna ábyrgð og sem betur fer gera þau það flest. Það er heimilt að leggja á fasteignaskatt samkvæmt þessari uppreiknireglu en það er ekki skylda.