Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:43:34 (2264)

1999-12-03 14:43:34# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef að vísu lesið í gegnum þessi fskj. með frv. og hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra. En það væri alveg fyrirgefanlegt einstaka þingmanni þó að hann kæmist ekki yfir að lesa öll þau frv. sem koma núna frá ríkisstjórninni á færibandi þegar komið er fram í desembermánuð, eða ætlar hæstv. ráðherra að halda því fram að þetta sé mjög vel að verki staðið hjá hæstv. ríkisstjórn að vera að koma fyrst nú málum frá sér af þessu tagi, ef ríkisstjórnin hefur ætlað sér að fá þetta afgreitt á eðlilegan hátt fyrir jólahlé? Ég veit að hæstv. ráðherra er þó það þingreyndur maður að hann reynir ekki að halda því fram að þetta sé til einhverrar fyrirmyndar í vinnubrögðum. Og hæstv. ráðherra þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé sérstaklega eftirbátur annarra þingmanna í því að sinna þingskyldum mínum eða lesa þingskjöl. Ég hygg að sagan hafi sannað annað, herra forseti, þannig að það þarf ekkert skítkast úr þeirri átt í þeim efnum.

Mér finnst hæstv. ráðherra vera í raun að segja að viðbótarhlutafjárútboð hafi á sínum tíma verið hrein og klár mistök vegna þess að það hafi aukið þenslu. Er þá ekki eðlilegt að ráðherra viðurkenni það? Að það hafi kannski verið óráð að fara út í það á þeim tíma sem það var gert og í ljósi aðstæðna eins og þær eru núna. Það að slík sala á eignarhlut ríkissjóðs slái mikið á þenslu fer auðvitað að langmestu leyti eftir því hvernig það er gert. Gerist það þannig að aðilar í þjóðfélaginu keppist við að lána almenningi allt kaupverðið eins og ástæða er til að ætla og almenningur geti síðan án nokkurra tímamarka innleyst hlutinn aftur og jafnvel með einhverri gengishækkun, þá má færa rök fyrir því að fé í umferð aukist en minnki ekki við aðgerðir af þessu tagi. Sérstaklega ef niðurstaðan reynist sú að gengið skrúfast upp út á einhverjar væntingar sem menn spila og kynda undir í þessu máli eins og þar á meðal hæstv. viðskrh. hefur gert. Hvað þýðir skilningur Sambands bankamanna og starfsmannafélaga bankanna á því að loforðin sem þeim voru gefin um einkasölu fyrstu fjögur árin eru nú svikin. Er hægt að fá nánari útskýringar á því?