Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:50:23 (2268)

1999-12-03 14:50:23# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu alltaf yndi af því að ræða hugmyndafræðilegan ágreining við hv. þm. Pétur Blöndal. En ég held að þetta mál snúist í sjálfu sér ekki um grundvallarafstöðu manna til einstaklingsfrelsis eða einstaklingshyggju og samfélagshyggju. Ég held það sé ekki nema hluti málsins a.m.k. Þetta er miklu nær okkur og snýst um praktískari hluti en það að mínu mati. Ég set það ekki endilega í það stóra samhengi. Mér finnst þetta vera stóra spurningin um nýfrjálshyggjuviðhorfin og ofstækið sem þar hefur verið á ferðinni hjá þeim sem gengið hafa lengst þar, eða viljað ganga lengst, eða varkárari sjónarmið sem m.a. byggja á því, burt séð frá hugmyndafræðilegum ágreiningi sem ég hélt að væri hægt að ræða, og hvort heppilegt eða æskilegt sé að taka af því áhættu að eignarhald í mikilvægustu fjármálastofnunum þjóðarinnar safnist á fáar hendur og verði til þess að auka enn á samþjöppun, fákeppni og einokun í íslensku viðskiptalífi. Það þarf ekki sósíalistann sem hér stendur til þess að færa fram rök fyrir slíkum hlutum. Lesi menn Morgunblaðið. Þetta sjónarmið á sér líka víða stuðning ósköp einfaldlega, burt séð frá pólitískum hugsjónum manna, út frá því hvað sé heilbrigt og heppilegt rekstrarumhverfi í landinu. Og er ekki hægt að fá um það málefnalega umræðu hér, eða á að þegja það út af borðinu af því að menn eru einhvers staðar á bak við tjöldin búnir að ákveða að gera þetta á einhvern tiltekinn hátt? Og hvers vegna er það þá? Er virkilega ekki hægt að ýta hugmyndafræðilega grundvallarágreiningnum aðeins til hliðar um sinn og ræða framkvæmd málsins? Ég minni á frv. okkar Ögmundar Jónassonar um það að þrátt fyrir ólíkar skoðanir á því hvað væri kannski heppilegast að gera varðandi þetta eignarhald, þá sameinist menn þó a.m.k. um að reyna að finna skynsamlegar leikreglur.