Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:57:01 (2271)

1999-12-03 14:57:01# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er eins og oft áður þegar hér hefur verið rætt um einkavæðingu eða breytingu á rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækja sem hafa verið í ríkiseign í mörg ár, að þá fer umræðan að snúast um það hvort fyrirtækið eða stofnunin yrði betur rekin sem einkastofnun eða ríkisstofnun. Í mínum huga er þetta alrangur málflutningur vegna þess að málið snýst ekki um það, t.d. hvort heldur lýtur að bönkunum eða öðrum ríkisstofnunum, að það eitt og sér að einkavæða stofnun geri það að verkum að hún verði miklu betur rekin þó að jafnvel sömu stjórnendur haldi um stjórnvölinn. Svo er ekki. Stjórnendur ríkisfyrirtækja eru mjög hæfir. Rekstrarumhverfi ríkisfyrirtækja er hins vegar allt annað en það sem fyrirtæki á einkamarkaði búa við. Þó á ekki það sama við um bankana og aðrar ríkisstofnanir vegna þess að flestar ríkisstofnanir búa við það að geta gert mjög takmarkaðar áætlanir, hugsanlega til eins árs í senn, vegna þess að fjárlög eru ákveðin til eins árs í senn. Það er ekki einu sinni gengið frá rammafjárlögum til þriggja ára þannig að stofnanir geti séð fyrir fram úr hverju þær hafi að spila og geti þess vegna gert áætlanir í samræmi við það. Ef illa gengur er ævinlega farið hér upp í ræðustól á hv. Alþingi að tala um slæma stjórnendur. Ég efast um að nokkur sé öfundsverður af að taka að sér að stjórna ríkisfyrirtæki í hvaða geira sem er miðað við þær aðstæður sem þeim eru búnar. Við megum ekki láta umræðu um mál eins þetta snúast um það að bara við að einkavæða banka megi tryggja að hann verði betur rekinn. Bankarnir okkar hafa verið vel reknir miðað við þær aðstæður sem oft hafa verið. T.d. hefur það oftar en ekki gerst að þegar verið er að velja stjórnendur bankanna þá hafa hæfniskröfur eða faglegar kröfur ekki verið gerðar, heldur hefur verið um pólitískar ráðningar bankastjóra að ræða, hvort heldur Seðlabankinn, Landsbankinn eða Búnaðarbanki hafa átt í hlut. Það er hins vegar gagnrýni vert.

Á þessu varð vissulega breyting þegar nýr bankastjóri Landsbankans var ráðinn fyrir rúmu ári síðan og mér fannst þar vera stigið skref í rétta átt. Við eigum auðvitað að standa þannig að verki við ráðningu starfsmanna, yfirmanna ríkisstofnana. Hvort sem það eru bankar eða aðrar stofnanir sem ríkið rekur og á að meiri hluta þá eigum við auðvitað að standa faglega að ráðningu þess fólks sem fer með þau fyrirtæki.

[15:00]

Því miður er það ekki gert og enn þann dag í dag erum við að sjá að eftir stjórnmálamönnum sem hafa lokið störfum sínum á hv. Alþingi bíða störf eða búnar eru til stofnanir eða fyrirkomulagi þeirra eða skipulagi breytt til að búa til störf fyrir stjórnmálamenn. Auðvitað verða þeir að eiga greiðan aðgang að atvinnumarkaðnum eftir að þeir ljúka störfum hér, en það verður að meta þá á faglegum forsendum eins og aðra sem sækja um störf. Slík vinnubrögð eigum við að viðhafa.

Það er erfitt að fá svona stórt mál og hafa mjög lítinn tíma til að fjalla um það, þ.e. söluna á 15% hlutafé í Landsbanka og Búnaðarbanka. Þótt ekki sé um það að ræða að selja meiri hluta hlutafjár í þessum bönkum þá eru þarna um 15% í hvorum banka. Þetta er mjög stórt mál og um það eru skiptar skoðanir og við eigum að ræða það út frá þeim forsendum einum hvert sé hlutverk ríkisins. Hvert er hlutverk ríkisins? Hvaða rekstur er það sem ríkið á að sjá um eða standa fyrir í breyttu umhverfi? Það eru þær forsendur sem eiga að liggja til grundvallar þeirri umræðu sem hér á sér stað, en ekki að fullyrða að um miklu betri rekstur verði að ræða bara við það eitt að einkavæða ríkisstofnanir.

Við hljótum að þurfa að fara í gegnum þá umræðu, og kannski verður það gert í næstu viku þegar 2. umr. fjárlaga á sér stað, a.m.k. ætti sú umræða vel heima þar, hvert hlutverk ríkisins er í mjög breyttu umhverfi, bæði hér innan lands og utan, og miða ríkisreksturinn við það. Ef tekin er ákvörðun af Alþingi að selja 15% í ríkisfyrirtækjum eins og Búnaðarbanka og Landsbanka eða fyrirtækjum í eign ríkisins, þá hljótum við auðvitað að þurfa að svara þeim spurningum, ef þessi sala skilar okkur 5--6 milljörðum kr., til hvers við ætlum að nota söluhagnaðinn. Á að nota hann til að greiða niður erlendar skuldir eða innlendar? Hvaða áhrif hefur það? Eða ætlum við að nota þetta fyrst og fremst til að styrkja þá þætti sem Alþingi væri búið að ákveða að væri samfélagsins að sjá um? Það er umræða sem við höfum bara alls ekki gengið í gegnum, og alls ekki sinnt því hlutverki okkar hér á hv. Alþingi að taka þá umræðu til enda og móta stefnu ríkisins um hver séu hin eiginlegu verkefni samfélagsins og hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Ég er ekkert sannfærð um að það sé rétt að ríkið reki tvo ríkisbanka, að það sé rétt í mjög breyttu umhverfi. Þó að það hafi á sínum tíma verið rétt ákvörðun miðað við þær aðstæður sem þá voru uppi, þá er ég ekkert sannfærð um að það sé rétt stefna í dag að vera með tvo ríkisbanka. Spurningin er hins vegar, væri rétt að hafa einn ríkisbanka eða ætlar Alþingi að taka þá ákvörðun að einkavæða þá báða, að ríkið eigi ekki neinn banka?

Sú umræða hefur aldrei átt sér stað af alvöru á Alþingi. Stefna ríkisstjórnarinnar liggur fyrir, en það hefur ekki verið farið í þá umræðu. Ef það hefði hins vegar verið gert væri auðveldara að koma með svo stór mál sem hér um ræðir og afgreiða á stuttum tíma, ef við hefðum unnið heimavinnuna og grunnvinnuna áður á hv. Alþingi, sem við höfum ekki gert. Ástæðurnar fyrir því að frv. er lagt fram núna hafa komið fram í umræðum, bæði í fjölmiðlum og í framsögu hæstv. ráðherra, þar sem m.a. hafa verið dregin fram þau rök að þetta sé til þess að slá á þenslu. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er allsendis óvíst að sala á hlutafé í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands á þessum tíma muni verða til þess að slá á þenslu. Við vitum ekki hvernig á að standa nákvæmlega að sölunni, þó hlýtur að vera búið að útfæra það, því ef frv. yrði samþykkt innan þeirra tímamarka sem hæstv. ráðherra virðist gera sér vonir um, þá hlýtur að vera búið að útfæra þær reglur sem eiga að gilda varðandi söluna á hlutafénu, því þetta þarf að gerast mjög hratt eigi það að nást fyrir áramót.

Þær ástæður sem gefnar eru upp í athugasemdum við lagafrv. eru í fyrsta lagi að þetta hvetji til aukins sparnaðar heimilanna, ég dreg það verulega í efa, að hlutabréfamarkaðurinn verði efldur, það má færa rök fyrir því, en aðalástæðan hlýtur að vera sú þriðja sem þar er nefnd, þ.e. að verðmyndun hlutabréfa í bönkunum verði treyst og einnig það að verðmyndun hlutabréfa í bönkunum er kannski sérstaklega hagstæð nú um stundir, eftir söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, og þess vegna, býst ég við, að það sé ástæðan fyrir því að sú ákvörðun var tekin með svo stuttum fyrirvara að leggja frv. fram. Það er mikil vinna sem liggur fyrir hjá í efh.- og viðskn. að fara yfir frv. og kalla eftir öllum þeim upplýsingum sem við þurfum að fá og áliti þeirra aðila sem koma að þessu máli. Við þurfum líka að fá álit frá Seðlabankanum á þeim atriðum sem hæstv. ráðherra telur upp í grg. að liggi að baki því að þetta frv. er lagt fram með svo stuttum fyrirvara. Við þurfum að ræða við Fjármálaeftirlitið og við þurfum að ræða við aðila fjármagnsmarkaðarins og nýtt öflugt stéttarfélag, sem mér skilst að sé að verða til, félag fjárfesta og innstæðueigenda sem stefnt er að verði öflugt stéttarfélag í framtíðinni. Við þurfum að kalla til fulltrúa allra þessara aðila á fund efh.- og viðskn. Nú hefur mér hins vegar skilist, og ég held að það sé rétt, að þrír eða fjórir fulltrúar í efh.- og viðskn. séu erlendis að sinna störfum þar á vegum þingsins og í þeim hópi er formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Ekki var fyrirhugað að hafa fund fyrr en á fimmtudagsmorgun í næstu viku. Miðað við þau tímamörk sem hér er um að ræða þarf mun meiri tíma en við virðumst hafa því að við hljótum öll að gera okkur grein fyrir hvaða tíma þarf til þess að fylgja frv. eftir verði það að lögum fyrir áramót og sé það vilji Alþingis að setja hlutabréfin á sölu fyrir áramót.

Einnig kemur fram í grg. með frv. þar sem raktar eru þær breytingar sem gerðar voru á sínum tíma á Landsbanka og Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, að þróunin hafi verið mun hraðari en menn höfðu gert sér grein fyrir eða áttað sig á við þessar breytingar, þar sem menn gáfu sér fjögur ár til að undirbúa sölu á hlutafé í Landsbanka og Búnaðarbanka, en ástæða þyki til að flýta því þannig að salan verði á dagskrá tæpum tveimur árum fyrr en áætlað var. Segja má að það sé að vissu leyti eðlilegt vegna þess að þróunin á fjármagnsmarkaði hefur verið miklum mun örari en Alþingi gerði sér grein fyrir og sérstaklega ef við lítum til þeirra reglna sem við samþykktum á sínum tíma um Fjármálaeftirlitið og samkeppnislögin. Það sýnir í raun að hv. alþingismenn hafa ekki gert sér grein fyrir hve hröð þessi þróun yrði. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að samhliða þessu frv., ég tala nú ekki um verði það að lögum fyrir áramót, sé gengið frá mun hertari reglum samkeppnislaga en eru í gildi í dag, og einnig um Fjármálaeftirlitið. Þ.e. að hertar verði reglur um samkeppni og Fjármálaeftirlitið. Ég tel það mjög nauðsynlegt í ljósi þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað og yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar að flýta sölu á hlutafé í Landsbanka og Búnaðarbanka, þá sé ástæða til þess að taka samkeppnislögin til endurskoðunar og ég bendi á að Samfylkingin hefur lagt fram frv. sem felur í sér verulega hertar reglur og víðtækari heimildir samkeppnisyfirvalda til að taka á málum. Við hljótum að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé þá ekki tilbúinn til að afgreiða þessi mál samhliða út, þ.e. Fjármálaeftirlitið, samkeppnislögin og síðan hugsanlega það frv. sem hér er á ferðinni. Ég tel að nauðsynlegt sé, ef farið verður í þessa sölu, að leikreglurnar sem verða settar séu mjög skýrar en þar vantar verulega á, bæði hvað varðar samkeppnislög og Fjármálaeftirlitið.

En fyrst og síðast hlýtur umræða eins og þessi að snúast um hvert eigi að vera hlutverk ríkisins. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom aðeins inn á það áðan að þetta frv. ásamt ýmsum öðrum málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur flutt, stórmálum sem hún hefur komið fram með, væri kannski ekki í anda félagslegra stjórnarhátta. Ég dreg í efa að það falli endilega undir félagslega stjórnarhætti að reka banka eða bankastarfsemi. Ég tel að Alþingi verði hins vegar að fara að gera það nákvæmlega upp við sig hvaða verkefni það eru sem falla undir það og ég nefni menntamál, heilbrigðismál og félagsmálin almennt. Og þegar við höfum skilgreint hlutverk ríkisins verður umræðan um það sem á eftir kemur, hvernig við ætlum að standa undir þeim kostnaði sem af rekstri þeirra málaflokka hlýst, öll auðveldari þegar við höfum tekið afgerandi ákvarðanir um það hvert skuli vera hlutverk ríkisins. Um það á þessi umræða að snúast en ekki um hvort viðkomandi bankar verði betur eða verr reknir fyrir eða eftir einkavæðingu. Hæfir stjórnendur eru hjá ríkisfyrirtækjum og þar eiga fagleg vinnubrögð að ráða ferðinni. Ég heyrði í gær, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. sagði að brátt yrði auglýst eftir nýjum bankastjóra Seðlabankans og ég leyfi mér að vona að við ráðningu seðlabankastjóra verði viðhöfð fagleg vinnubrögð, þar verði ekki um pólitíska ráðningu eingöngu að ræða, heldur fyrst og fremst verði nýr bankastjóri Seðlabankans ráðinn á faglegum forsendum. Þannig eigum við að standa að þeim rekstri sem ríkið hefur með höndum og fara í umræðu um það hér hvert skuli vera hlutverk ríkisins og um það snýst þetta frv. fyrst og fremst.