Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:29:02 (2273)

1999-12-03 15:29:02# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Já, herra forseti. Við verðum sjálfsagt seint sammála um það, ég og hæstv. viðskrh., hver sé aðalskýringin á batnandi afkomu bankanna. Úr því að hæstv. ráðherra er orðinn svo sannfærður einkavæðingarsinni að hann talar eins og útgáfa af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þá reikna ég ekki með því að við munum eiga samleið í þessum efnum. Ég hygg þó að opinberar tölur og staðreyndir liggi nú fyrir í þeim efnum og sýni m.a. að þessi afkomubati bankanna er nokkurn veginn í öfugu hlutfalli við minnkandi afskriftaþörf þeirra vegna áfalla í atvinnulífinu frá undangengnum árum. Það tók bankana nokkur ár að ná sér upp úr þeim öldudal, að jafna sig á þeim áföllum sem þeir urðu fyrir vegna mikilla afskrifta og þrenginga eins og kunnugt er þegar íslenskt efnahagslíf gekk í gegnum mikinn öldudal frá árunum 1988--1994. Þetta taldi ég nokkuð viðurkenndar staðreyndir. Auðvitað, ef það þjónar pólitískum markmiðum manna að láta líta svo út sem þetta hafi allt gerst með tilkomu ,,háeffunarinnar``, þá mega menn svo sem reyna það fyrir mér.

[15:30]

Í öðru lagi fannst mér hæstv. ráðherra færa hér ágæt rök, að vísu alveg óvart, fyrir því að skynsamlegasta aðgerðin í þessum efnum hefði verið sú að sameina ríkisbankana. Þegar hæstv. ráðherra fór hér með ræðurnar um að það væri nauðsynlegt að þeir stækkuðu til þess að geta veitt íslenskum fyrirtækjum og stórum íslenskum fyrirtækjum nógu góða þjónustu, þau væru orðin svo stór sum hver og væntanlegar alþjóðlegar kröfur um strangari eiginfjárhlutföll, eða CAD-reglur, gerðu það að verkum að við þyrftum að undirbúa okkur undir þessa framtíð, hvers vegna tók þá hæstv. ráðherra ekki undir þau sjónarmið okkar sem vildum að það yrði skoðað á sínum tíma að úr því að menn fóru út í að breyta bönkunum á annað borð þá sameinuðu menn þá til þess að búa til einn stóran og sterkan banka sem m.a. gæti betur rækt þetta hlutverk, þ.e. að veita stærstu aðilunum í íslensku viðskiptalífi betri þjónustu?

Herra forseti. Að lokum sé ég ekki að nein rök hafi komi fram í þessu máli sem geri það að verkum að menn séu í einhverri tímanauð með að hamast með þetta mál hér í gegnum þingið fyrir jól. Ég tel þær röksemdafærslur a.m.k. ekki sannfærandi.