Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:33:39 (2275)

1999-12-03 15:33:39# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í samræmi við sína markaðshyggju vill hæstv. viðskrh. selja allt vald í hendur hinum alvitra, óskeikula markaði og það er eðlilegt sjónarmið út frá þeirri hugmyndafræði sem hann virðist nú orðið ganga aðallega fyrir. Vissulega mátti ýmislegt betur fara í íslenska bankakerfinu. Ég ætla síðastur manna að tala fyrir öðru en því að þar hafi mátt stokka ýmislegt upp og hagræða. Og ef við lítum t.d. 10--12 ár aftur í tímann, áður en Íslandsbanki varð til og á þá mynd sem við okkur blasti á þeim tíma, þá held ég að allir séu sammála um að það var ekki mjög hagkvæmt kerfi. Sömuleiðis voru ríkisviðskiptabankarnir að mörgu leyti kannski dálítið staðnaðar stofnanir. En það þurfti enga ,,háeffun`` í sjálfu sér til til þess að gera þar ýmsar úrbætur. Það er hægt að hagræða og standa myndarlega og vel að rekstri með fleiri aðferðum en þeim einum að skeyta þessu hf. aftan við sem oftast hefur svo í kjölfarið þær afleiðingar að menn fara að segja upp fólki og hagræðingin bitnar aðallega á mannahaldinu o.s.frv. eins og kunnugt er. En ég a.m.k. trúi ekki á þennan töframátt bókstafanna hf. Það er alveg á hreinu.