Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:35:54 (2277)

1999-12-03 15:35:54# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki hægt annað en að grípa þetta síðasta sem hæstv. ráðherra segir vegna þess að hér var verið að ræða nýtt frv. til laga um Byggðastofnun og ef einhvers staðar má sjá sovéskt fyrirkomulag og vald sem á að koma ofan frá, þá sýnist mér að það sé þar. En það voru nú ekki spurningarnar heldur hitt að það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það vantaði bréf á markaðinn, að skortur væri á bréfum á markaðnum í dag og þess vegna væri m.a. hagstætt að setja hlutabréf í bönkunum á sölu. Er hluti þeirrar ástæðu að bréf vantar á markaðinn sá að fyrirtækin sem að eru að undirbúa sölu á hlutabréfum, m.a. með tilliti til skattafsláttar og af því að tíðin hefur verið söluvæn í desember, hafa haldið að sér höndum um tíma, m.a. til þess að ná upp verði og móta þessar hagstæðu aðstæður á markaðnum til þess að geta síðan komið inn á hann núna, sem sagt eftir miðjan desember? Er hugsanlegt að það að bréf frá Landsbanka og Búnaðarbanka komi inn á markaðinn um leið rýri möguleika þeirra fyrirtækja á sölu?

Hin spurningin er hvort hæstv. ráðherra mundi vera tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að frumvörpin tvö um Fjármálaeftirlitið, annars vegar frá Samfylkingunni og hins vegar frá hæstv. ríkisstjórn, verði rædd samhliða og afgreidd. Mér finnst það skipta verulegu máli.

Síðan er það spurning sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði en ekki fékkst svar við: Er þetta liður í hugsanlegri sameiningu eða samruna banka, t.d. Landsbanka og Íslandsbanka?