Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:37:54 (2278)

1999-12-03 15:37:54# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi Byggðastofnun. Öll viljum við taka mikið mark á Ríkisendurskoðun og viljum hafa hana að leiðarljósi í öllu því sem við gerum. Það fyrirkomulag sem kynnt er í þessu frv. um Byggðastofnun, þ.e um hvernig stjórnsýslusamband skuli vera milli þess sem skipar stjórn viðkomandi stofnunar og þess ráðherra sem fer með yfirstjórn þeirra mála, er nákvæmlega í samræmi við það sem Ríkisendurskoðun er að leggja til og er til þess fallið að auka ábyrgð í stjórnsýslunni.

Önnur spurning hv. þm., hvort það gæti verið að skyndilega kæmi, eins og mátti skilja það, svona án þess að menn vissu nákvæmlega, aukið framboð bréfa inn á markaðinn, þá hef ég ekki trú á því. Ég þekki það ekki. Ég get ekki svarað því. Þetta er eitt af því sem mér finnst að efh.- og viðskn. ætti að spyrja Verðbréfaþingið um. Ég held hins vegar að ef svo væri þá vissu menn það nú þegar ef slíkt væri yfirvofandi.

Í þriðja lagi ítrekaði hv. þm. spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem ég komst ekki til að svara áðan, um hvort þetta væri liður í undirbúningi að einhverri frekari sölu í bönkunum. Nei, síður en svo. Þetta gengur í aðra átt. Þetta er ekki til að sameina, heldur gengur þetta í þá átt að dreifa eignarhaldinu enn frekar. Það sem ég var að segja áðan þegar ég var að tala um að kannski sé rétt að takmarka enn frekar, ef þinginu sýnist svo, heimildir viðskrh. til auka hlutafé í bönkunum, þá finnst mér það koma til greina og sé ekki partur af því að vera með frekari söluáform uppi. Hins vegar vil ég ekkert útiloka að þær óskir og kröfur geti ekki fram komið frá þeim sem á markaðnum eru ef menn vilja fara út í einhverjar hagræðingaraðgerðir. Þá vil ég setja þau markmið fram, sem ég lýsti hér áðan, sem höfuðatriði í því og ég vona að hv. þm. geti fallist á að það sé skynsamlegt. En það eru engin áform af hálfu ríkisstjórnarinnar uppi í þeim efnum eins og staðan er.