Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:57:59 (2283)

1999-12-03 15:57:59# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er margbúin að kalla eftir þessu en hæstv. ráðherra virðist aldrei heyra það. Það sem er kannski meginmálið í mínum málflutningi er að það er verið að hefja sölu á hlutafé úr bönkunum áður en stefnumótun um fjármálamarkaðinn liggur almennt fyrir. Hún liggur ekki fyrir að því er ég best veit. Og hvernig á að haga sölunni á þessum bönkum? Eftir því hefur margsinnis verið kallað og hvort fyrir liggi nokkur ákvörðun um það. Liggja t.d. fyrir áform um að allur hluturinn úr þessum bönkum verði ekki seldur á þessu kjörtímabili? Hefur einhver afstaða verið tekin í því efni? Við þessu vildi ég gjarnan fá svar.

Mér fannst hæstv. ráðherra skauta mjög létt yfir þetta kennitölufár vegna þess að fullt af fólki á ekki peninga og getur ekki tekið lán. En tilboð sem það fékk frá bönkunum um að það þyrfti ekkert að leggja fram, ekki eina krónu, heldur bara koma í bankann og sækja mismun á gengi sem mig minnir að hafi verið um 18 þús. kr. á þessum hámarkshlut sem mátti kaupa, án þess að taka lán, án þess að leggja fram krónu, er bara mjög freistandi. Þannig gátu Kaupþing og fleiri aðilar safnað miklu hærri hlut en ríkisstjórnin taldi æskilegt. Þetta finnst mér mikilvægt að láta koma hér fram vegna þess að ég óttast að þessi leikur muni endurtaka sig.

Svo fagna ég því að hæstv. ráðherra tekur undir það --- hann mun þá væntanlega beita sér fyrir því og leggja fram frv. um það --- að setja stífari kröfur um eiginfjárhlutfallið.