Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:59:46 (2284)

1999-12-03 15:59:46# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi kennitölufárið þá er alveg rétt að ég skautaði hratt yfir það enda er ekkert meira um það fár að segja að mér finnst. Það var bara bylgja sem gekk hér yfir á sínum tíma. Ég er sannfærður um að sú bylgja muni ekki ganga aftur yfir. Þetta er eins og hver önnur flensa sem kemur hér á hverju hausti, og af því ég sé hér hv. þm. Gunnar Inga Gunnarsson, þá veit ég að hann gæti bólusett fyrir slíku ef svo bæri undir.

Varðandi stefnumótunina, þá er alveg skýr afstaða og skýr stefnumótun í gangi. Lögin um viðskiptabanka og sparisjóði leggja grunn að þeirri stefnumótun sem er í gangi. Lög um fjármálaeftirlit eru partur af þeirri stefnumótun, tiltölulega ný lög. Við erum með breytingar á þeim núna. Lög um samkeppnismál leggja grunn að stefnumótun eins og þessari. Mér finnst því ekki skorta neitt á í stefnumótuninni sem slíkri. En ég veit hvað hv. þm. er að spyrja um. Á að selja meira og hvenær á að gera það? Ég hef sagt og sagði það hér áðan að ég tel það ekki vera forgangsatriði að halda áfram sölu. Ef þetta gengur fram þá erum við búin að uppfylla 25% skilyrðið sem við settum okkur og Verðbréfaþingið setti okkur. En fyrst og fremst tel ég að núna eigi að vera forgangsverkefni að fara út í hagræðingaraðgerðir og í hagræðingaraðgerðunum þarf ekki að felast sala. Eftir að menn væru búnir að ná fram hagræðingu á markaðnum, sem menn telja vera skynsamlegt, þá tel ég það ekki vera neitt áhersluatriði hjá ríkinu að fara út með einhverjum óskaplegum hraða. Hvað eigum við að gera? Við eigum að mínu viti fyrst og fremst að horfa á það hvenær við fáum mest fyrir þá eignarhluta sem ríkið á í þessum fyrirtækjum. Nákvæmlega þannig hugsa ég þetta núna. Nú er tækifæri. Framboð bréfa er takmarkað. Nýtum okkur tækifærið til að fá gott verð þannig að þjóðin fái sem mestan ábata af þessu. Sama gildir þegar hagræðingin hefur gengið í gegn, þá munu bréfin hækka í þessum fyrirtækjum sem ríkið á. Nýtum svo markaðsaðstæðurnar á hverjum tíma til þess að fá sem mest fyrir þau. Þetta tel ég að við eigum að hafa að leiðarljósi. Og ef hv. þm. spyr um stefnu, þá er þetta mín stefna.