Grunnskólar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:38:03 (2294)

1999-12-03 16:38:03# 125. lþ. 35.13 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrra andsvari sínu gerði hv. formaður menntmn., Sigríður Anna Þórðardóttir, athugasemdir við ummæli sem ég hafði viðhaft um einkunnabirtingu og það eru svo sem engin ný sannindi, hvorki fyrir þingheim né aðra að við höfum lengi verið ósammála um einkunnabirtingu.

Ég tel að einkunnabirting sé eitt það versta nýmæli sem tekið hefur verið upp í sambandi við skólastarf á Íslandi á liðnum árum. Ég tel hins vegar mjög gott fyrir kennara og skólafólk og jafnvel foreldra að vita niðurstöðu barna á samræmdum prófum og geta notað það til að bæta stöðuna fyrir hvert og eitt barn. En þessar meðaltalseinkunnir sem eru reiknaðar út fyrir hvern og einn skóla og birtar án tillits til þess hvort þeir eru með 12 nemendur í samræmdum prófum eða 240 gefa ekki rétta mynd. Mismunurinn milli ára getur verið svo gríðarlegur bara út af einum nemanda í fámennum skólum, t.d. í þorpunum úti á landi sem mörg hafa farið ákaflega illa út úr slíkum birtingum og það hefur hreinlega verið áfall fyrir sjálfsmynd fólks á þessum stöðum og að ástæðulausu því að þetta er ekki óskeikult. Og ég tel að það allra jákvæðasta við þessa lagasetningu sem við erum að tala um í dag sé að væntanlega komi það út úr henni að ekki verði lengur hægt að birta einkunnir einstakra skóla.