Grunnskólar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:40:04 (2295)

1999-12-03 16:40:04# 125. lþ. 35.13 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, KolH
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns menntmn. Alþingis, skrifa ég undir þetta nál. sem hér liggur fyrir með fyrirvara. Ég geri í eftirfarandi orðum grein fyrir þeim fyrirvara.

Hér er um að ræða mál sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir að gagnist þeim nemendum sem eru vel á vegi staddir í námi og að sjálfsögðu er ekkert nema gott um það að segja. Þeir nemendur eiga rétt á námi og námsferli við sitt hæfi. Á hitt ber að líta að framkvæmd þessara laga gæti orðið flókin og þung í vöfum nema til komi stóraukið fjármagn til rekstrar skólanna og ég vil í því sambandi gera það að forsendu álits míns að til komi verulega aukin námsaðstoð við þá nemendur sem eiga erfitt með að gangast undir samræmd próf.

Þegar skoðaðar eru umsagnir sem nefndinni bárust um frv. þá vil ég vitna til tveggja umsagna. Sú fyrri er frá Kennarasambandi Íslands og Hinu íslenska kennarafélagi og þar segir um greinina er tekur á samræmdu lokaprófunum í 9. bekk, með leyfi forseta:

,,Kennarafélögin telja þó að ekki verði um raunverulegt val að ræða nema til komi stóraukin námsráðgjöf og öllum nemendum sé það fullkomlega ljóst hvaða möguleikar opnast eða lokast við það að taka tiltekin próf eða sleppa þeim.``

Herra forseti. Hér kemur fram að aukin námsráðgjöf er forsenda þess að um alvöruval verði að ræða. Þá erum við kannski komin að því að ríkisvaldið sem lofaði skólunum tekjustofnum til að mæta kostnaði sveitarfélaganna við yfirtökuna á skólarekstrinum er hér á að setja lög sem ég tel vera til bóta og af hinu góða en skuldbinda sveitarfélögin til enn frekari fjárútláta vegna skólamála. Að sjálfsögðu vona ég að þessi lagabreyting eigi eftir að skapa frjóa og almenna umræðu um hvernig við tökum þá á málum í 9. bekk þar sem börn geta samkvæmt þessu valið mjög ólíkar leiðir. Verið er að tala um fjölgun á samræmdum prófum upp í sex. Það hefur hingað til ekki verið um svo mikinn fjölda að ræða til lokaprófs úr 10. bekk grunnskóla.

Mig langar til að vitna til annarrar umsagnar sem nefndinni barst út af þessu máli en það er umsögn frá Landssamtökunum Heimili og skóla. Um þennan þátt frv. segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Stjórn samtakanna styður báðar þær breytingar sem ákvæðið felur í sér, þá að próftaka í lok grunnskóla verði réttur nemenda en ekki skylda og nemandi geti þannig valið hvort og þá hvaða samræmd próf hann tekur og að greinum á samræmdum prófum verði fjölgað úr fjórum í sex.``

Samtökin Heimili og skóli leyfa sér sömuleiðis í umræddri umsögn að benda á það að samræmdu prófin þjóni eftir sem áður þeim megintilgangi að flokka börn í hópa og þá út frá því hvort þau ráða vel eða illa við sitt nám og benda á þá hættu sem ég hef talað um, að það sé möguleiki á því að sá stóri hópur sem Heimili og skóli telja í umsögn sinni að geti verið allt upp í 30% í hverjum árgangi nái ekki þeim tilskilda árangri að uppfylla skilyrði fyrir inngöngu í nokkurn framhaldsskóla, en að þessir nemendur eigi jafnan rétt og aðrir á því að mat sé lagt á árangur þeirra miðað við hæfileika og getu og til að njóta sín á þeim sviðum þar sem styrkur þeirra liggur svo mannauður þeirra sem annarra fái ávaxtast. Ég deili þeim áhyggjum Landssamtakanna Heimilis og skóla vegna þess að ég þekki aðeins til þessa veruleika sem er í 9. bekk og samkvæmt þessum lögum er gert ráð fyrir að börnin geri upp hug sinn um námslok í 8. bekk. Ég bendi á að hér erum við að fjalla um 13 ára börn í 8. bekk grunnskóla.

Ég skil fagra hugsun sem liggur að baki því að nemendur þurfi að taka aukna ábyrgð á vali sínu og að auka þurfi valfrelsi þeirra og sjá til þess að þau af meðvitund geti tekið ákvarðanir sínar og stjórnað námi sínu. Ég skil allar þær hugsanir. En veruleikinn í þessum bekkjum er sá að þetta eru börn sem hafa mismikið bakland í foreldrum sínum og fjölskyldum og mér finnst ekki auðvelt að horfa fram á það eða ekki einfalt að álykta að börn á þessum aldri geti af þessari miklu meðvitund tekið þá ábyrgð og notið þessa vals. Það er ekki einasta að þau börn sem eiga í námserfiðleikum þurfi aukinn stuðning við þessa breytingu heldur þurfa þau börn sem eru vel á vegi stödd líka stuðning við ákvarðanatöku sína.

Niðurstaða mín er sem sagt sú að þetta sé góð breyting en það þurfi að koma til aukin meðvitund um þá miklu námsaðstoð sem ég tel að þessi breyting útheimti.

Varðandi hitt atriðið í frv., þ.e. það að menntmrh. sé heimilt að veita sveitarfélögum sem þess óska frest til 1. september 2004 til að framkvæma ákvæði 3. gr. um einsetningu grunnskóla, þá vil ég sömuleiðis vitna til þessara tveggja umsagna sem nefndinni hafa borist um málið og aftur vitna ég í umsögn Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags. Þar segir um einsetninguna, með leyfi forseta:

,,Ef til vill var óraunhæft að ætla að hún kæmist til framkvæmda á svo skömmum tíma. Því til staðfestingar má benda á ófullnægjandi skólahúsnæði og viðvarandi skort á grunnskólakennurum. Sumar þeirra bygginga eða skúra sem nemendum og kennurum er gert að starfa í rísa varla undir því nafni að kallast skóli. Þessi staða blasti við þegar árið 1996 og hefði átt að gera ráð fyrir henni þegar ríki og sveitarfélög gerðu samning um kostnaðinn við yfirfærsluna ...``

Þar með lýk ég tilvitnun í umsögn Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags og verð að segja, herra forseti, að hér staðfestist í raun og veru það álit þeirra sem höfðu hæst varnaðarorð uppi um yfirfærsluna á sínum tíma. Sveitarfélögin eru og hafa verið afskaplega misjafnlega í stakk búin til að taka á sig það hlutverk að standa ábyrg við rekstur grunnskólanna. Það er nú að koma í ljós að á fámennum sveitarfélögum eru verulegir erfiðleikar. Þetta var eitthvað sem bent var á að gæti komið upp og ég tel að okkur sé nauðsynlegt að taka á því máli núna og ræða algerlega ofan í kjölinn sérstaklega málefni minni skólanna í ljósi þess að þar er verið að kenna við óviðunandi aðstæður. Við sjáum það á töflu sem menntmn. hefur haft í fórum sínum um einsetningu skólanna að oft hefur reynst erfitt í smærri eða fámennari sveitarfélögum að standa við einsetninguna þó að það sé alls ekki einhlítt því það er sömuleiðis uppi á teningnum í stærri sveitarfélögunum.

Varðandi þetta atriði langar mig einnig að vitna til umsagnar Heimilis og skóla en þar segir um einsetninguna, með leyfi forseta:

,,Samtökin geta ekki verið fylgjandi því að sá frestur sem sveitarfélögin hafa til að ljúka einsetningu grunnskólanna verði lengdur enda er með því verið að brjóta á jafnræði nemenda auk þess sem ekki verður séð hvernig unnt verður víða í tvísetnum skólum að koma við því tímamagni sem lögboðin viðmiðunarstundaskrá kveður á um.``

Sannarlega deili ég þessum áhyggjum Heimilis og skóla en tel samt rétt í ljósi veruleikans hjá sveitarfélögunum að samþykkja lagagreinina eins og hún er lögð til í frv.

Að öllu þessu sögðu, herra forseti, er niðurstaða mín sú að ég samþykki frv. en treysti því jafnframt að öflugur stuðningur verði veittur þeim nemendum sem eiga við námserfiðleika að stríða sem þýðir þá um leið að kennurum verði gert kleift að kenna öllum nemendum 9. bekkjar þar sem nemendur eru á ólíkum brautum og á ólíkum hraða í sínu námi.