Grunnskólar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 16:52:22 (2297)

1999-12-03 16:52:22# 125. lþ. 35.13 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[16:52]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi einsetninguna. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég var efins um yfirfærsluna á sínum tíma. Ég hafði þá í huga varnaðarorð t.d. Finna í þeim efnum. Mér sýnist líka ýmislegt vera að koma á daginn sem við vorum vöruð við á þeim tíma.

Ég viðurkenni, eins og ég benti reyndar á í ræðu minni, að það er ekki einhlítt að smærri sveitarfélögin eigi í þessum erfiðleikum. Hins vegar veit ég að smærri sveitarfélögin keyra sig svo hart í skólamálunum að aðrir málaflokkar líða jafnvel fyrir. Það hef ég heyrt á ferðum mínum um landið þegar ég hef talað við sveitarstjórnarmenn í smærri sveitarfélögunum um þessi mál. En ég viðurkenni að það er ekki einhlítt.

Varðandi hitt, að þeir nemendur sem erfitt eiga með nám hafi líka gagn af þessari lagagrein þá fer það allt eftir því hvernig skólunum tekst að halda á málum. Við vitum að þeir nemendur sem valið hafa að taka samræmdu prófin þurfa virkilega á orku kennarans að halda til að koma sér í gegnum undanfara hinna samræmdu prófa. Við það vill það gerast að hinir sem eiga erfiðara með nám dragast aftur úr og geta ekki fylgt eftir kröfum kennarans. Kennslan miðast við að koma þeim sem völdu samræmdu prófin í gegnum þau. Þess vegna sem er mikil þörf á því að samhliða þessari ákvörðun komi aukinn stuðningur inn í bekkina, stuðningur við kennara og þá nemendur sem ekki eru á leið í samræmd próf þannig að enginn beri skarðan hlut frá borði í þessu máli.