Kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:08:31 (2303)

1999-12-06 14:08:31# 125. lþ. 36.1 fundur 180#B kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel að það hafi verið alveg nauðsynlegt að gefa hæstv. forsrh. þetta svigrúm á Alþingi til að bera af sér sakir varðandi ásakanir Kaupþingsmanna en staðan núna eftir að hæstv. forsrh. hefur tjáð sig í málinu er að fullyrðing stendur gegn fullyrðingu. Þetta er auðvitað spurning um trúverðugleika og heiður forsrh. sem ég ber svo sem ekkert sérstaklega fyrir brjósti. En mér er umhugað um heiður og virðingu þingsins og að ráðherrar fari ekki fram með rangar upplýsingar á Alþingi.

Hæstv. ráðherra segir að þessi leynisamningur eða baksamningur sé til. Ég spyr: Er hægt með einhverjum ráðum að fá þennan baksamning fram í dagsins ljós til þess að sannreyna hvor hafi rétt fyrir sér, Kaupþing eða hæstv. ráðherra? Eftir stendur síðan fullyrðingin sem ég veit ekki hvernig á að sanna en sem mér finnst nauðsynlegt að sanna vegna trúverðugleika hæstv. forsrh. til þess að sannreyna að hann hafi farið með rétt mál á þinginu. Var það virkilega svo að Kaupþingsmenn buðu bara 8,5 milljarða eða var um að ræða 14 milljarða boð eins og þeir halda fram? Þeirri spurningu er ósvarað.