Kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:09:52 (2304)

1999-12-06 14:09:52# 125. lþ. 36.1 fundur 180#B kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings# (óundirbúin fsp.), forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. hefur ekki lesið yfirlýsingu þeirra í Kaupþingi nægilega vel. Það kemur fram í yfirlýsingunni að þeir hafi síðar verið tilbúnir að greiða þetta verð. Þeir hafa bara ekki sagt neinum manni frá því í rauninni. Í annan stað liggur fyrir að þessir menn sögðu að enginn slíkur samningur væri í gildi um að þeir ætluðu að halda áfram samvinnu við að kaupa bréf ríkisins, raka þeim saman. Þess vegna heimtuðu þessir menn að þetta yrði selt í dreifðri eignaraðild áfram. Þeir héldu því fram að samningur um þetta efni væri ekki til. En þeir staðfesta það hér í þessari yfirlýsingu sinni.

Að vísu er ég náttúrlega þakklátur eins og aðrir valdamenn landsins að fá aukið svigrúm í öllu tilliti, en ég tel að ég þurfi ekki á því að halda sérstaklega í sjálfu sér vegna þess að hér kemur þetta allt saman fram. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Það að samningurinn innihéldi ákvæði um frekari hlutabréfakaup samningsaðila, reyndist slíkt unnt, með það að markmiði að sameina Kaupþing og FBA þarf ekki að koma neinum á óvart.``

Því gátu þessir menn ekki viðurkennt það fyrr en með þessari yfirlýsingu? Þetta var það sem ég hélt fram að væri fyrir hendi og hafði um það öruggar, traustar og ábyggilegar upplýsingar og þær upplýsingar reyndust réttar.