Kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:11:04 (2305)

1999-12-06 14:11:04# 125. lþ. 36.1 fundur 180#B kaupin á FBA og yfirlýsingar forsvarsmanna Kaupþings# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Af því að hæstv. forsrh. heldur því hér fram að Kaupþingsmenn hafi síðar sagt að þeir væru tilbúnir til að greiða meira en 8,5 milljarða, þá segir í yfirlýsingu þeirra orðrétt:

,,Sjálfsagt er hins vegar að upplýsa að sú fjárhæð, sem sparisjóðirnir og Kaupþing voru tilbúnir að greiða á sínum tíma, framreiknuð til dagsins í dag, er áþekk þeirri fjárhæð sem ríkissjóður fékk að lokum við sölu bankans.`` (Forsrh.: Þeir sögðu engum frá þessu.)

Þar er um að ræða 14 milljarða kr. og það er voðalega slæmt, herra forseti, að eftir þessa umræðu hér standi fullyrðing gegn fullyrðingu varðandi þetta atriði.

Það væri náttúrlega mjög gott líka ef það kæmi fram við þessa umræðu hvort hæstv. forsrh. væri með einhverju móti tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þessi baksamningur eða leynisamningur kæmi fram í dagsljósið til þess að staðreyna hið rétta í málinu.