Yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um sameiningu banka

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:15:31 (2308)

1999-12-06 14:15:31# 125. lþ. 36.1 fundur 181#B yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um sameiningu banka# (óundirbúin fsp.), viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég las úttekt Morgunblaðsins eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Reyndar átti ég von á henni vegna þess að Morgunblaðið hafði tekið viðtal við mig og spurst fyrir um þessa hluti.

Á föstudaginn þegar umræða fór fram um 15% sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka kom skýrt fram að ég taldi að þegar náð væri skilyrðum sem reglur Verðbréfaþingsins gera ráð fyrir, um 25% eignarhlut annarra en ríkisins í bönkunum, væri ekki ástæða til að halda eins hratt áfram í eignarsölu og áður hefur verið gert. Ég taldi að næsta skref sem við ættum að beita okkur fyrir á íslenskum fjármagnsmarkaði væri að leita eftir frekari hagræðingu í bankakerfinu. Sú hagræðing getur m.a. falist í að sameina fjármálafyrirtæki, auka samstarf þeirra, leita eftir samstarfi við erlend fjármálafyrirtæki á íslenskum fjármagnsmarkaði og þar fram eftir götunum með það að meginmarkmiði að lækka vaxtakostnað og draga úr rekstrarkostnaði bankanna þannig að íslensk fyrirtæki og fólk í landinu búi við sambærileg samkeppnisskilyrði og löndin í kringum okkur.

Ég sagði hins vegar að ég ætla ekki að beita mér fyrir slíkum breytingum. Ég vil að frumkvæðið komi frá markaðnum. Ég vona að hv. þm. hafi verið staddur í þingsalnum þegar þessi umræða fór fram. Hann var reyndar ef ég man rétt á dálitlum hlaupum út og inn en þetta kom margoft fram í máli mínu. Ég gef hv. þm. nákvæmlega sömu svör nú. Það kann vel að vera að markaðurinn sé að taka við sér í þeim efnum en þessar breytingar verða ekki gerðar nema með tilstyrk Alþingis. Það liggur fyrir.