Yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um sameiningu banka

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:18:39 (2310)

1999-12-06 14:18:39# 125. lþ. 36.1 fundur 181#B yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um sameiningu banka# (óundirbúin fsp.), viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það liggur fyrir eins og fram kom í umræðunum á föstudaginn að engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum efnum. Það að eitthvað gerist á árinu 2000, það getur svo margt gerst á því ári og útilokað að segja til um það í árslok 1999 hvað muni gerast á íslenskum fjármagnsmarkaði á þeim 365 dögum sem fram undan eru. Í þeim efnum er útilokað að fullyrða nokkuð.

Ég vonast til að ég og hv. þm. séum sammála um að það sem skiptir meginmáli er að ná fram hagræðingu í bankakerfinu sem hefur það að meginmarkmiði að draga úr kostnaði og lækka vexti í landinu þannig að við getum boðið landsmönnum og fyrirtækjunum í landinu sambærilega fjármálaþjónustu og fólk og fyrirtæki í löndunum í kringum okkur býr við.