Umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:35:30 (2323)

1999-12-06 14:35:30# 125. lþ. 36.1 fundur 184#B umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Spurning mín er um hlut fjmrn. og afstöðu hæstv. fjmrh. til skýrslu OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar um íslensk efnahagsmál 1999--2000. Skýrsla þessi er þess eðlis að óhjákvæmilegt er að mínum dómi annað en hæstv. fjmrh. geri grein fyrir afstöðu sinni.

Í niðurstöðu skýrslunnar er lýst áhyggjum yfir því að verðbólga fari vaxandi og að mikill halli á viðskiptum við útlönd sé hjá Íslendingum, en þetta séu augljós merki um ofþenslu. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Augljós merki eru um ofþenslu þar sem atvinnuleysi er nú undir 2%.``

Þessi dæmalausa afstaða til atvinnuleysisins, sem er hér efnahagsleg stærð en ekki þjóðfélagsböl eins og Íslendingar hafa litið á það, þarfnast skýringa af hálfu hæstv. fjmrh.

Það eru ekki síður aldraðir sem fá sitt í þessari skýrslu. Hér eru settar fram hugmyndir um stórauknar álögur á aldrað fólk. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hægt væri að takmarka kostnað ríkissjóðs vegna umönnunar aldraða með því að leggja á hærri þjónustugjöld.``

Og síðar segir:

,,Svigrúm er til að auka þjónustugjöld með því að lækka þann hluta af lífeyrisgreiðslum sem einstaklingar á hjúkrunarheimilum halda eftir. En í ljósi eigna aldraðra ættu stjórnvöld að íhuga að fara fram á að hluti þeirra eigna verði notaður til að greiða fyrir dvölina á hjúkrunarheimilum þótt ekki væri nema í því formi að safna skuld við ríkissjóð sem yrði greidd að lokum. Í þessu ljósi yrði að setja reglur sem takmörkuðu hættuna á því að einstaklingar neyttu eigna sinna snemma eða ánöfnuðu þeim til barna sinna.``

Þetta er alvarleg yfirlýsing og við þurfum að heyra afstöðu fjmrh. til hennar.