Umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:37:50 (2324)

1999-12-06 14:37:50# 125. lþ. 36.1 fundur 184#B umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD# (óundirbúin fsp.), fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er svo að ýmsir alþjóðlegir aðilar hafa tekið að sér að gera úttekt á efnahagsmálum á Íslandi fyrr og síðar. Þar á meðal er Efnahags- og framfarastofnunin í París, OECD.

Á undanförnum mánuðum og missirum hef ég þóst greina merki þess að stjórnarandstaðan teldi sig að jafnaði vera komna með mikinn happafeng í hendur þegar slíkar skýrslur berast vegna þess að þá væri aldeilis hægt að fara að berja á ríkisstjórninni. Maður hefur heyrt það úr herbúðum Samfylkingarinnar m.a. og frá ýmsum öðrum. Reyndar er það nú svo að úttektir þessara aðila hafa gefið til kynna mjög skýrt að efnahagsmál á Íslandi eru í mjög góðu lagi og það er auðvitað heildarniðurstaðan og það sem máli skiptir í úttekt OECD að efnahagsmál á Íslandi eru í góðu lagi þegar á heildina er litið þó vissulega gæti um þessar mundir nokkurra einkenna ofþenslu. Þetta tel ég að sé meginmálið í skýrslunni.

Síðan hafa skýrsluhöfundar tekið sig til og farið að velta fyrir sér nokkrum atriðum sem varða einstaka þætti í þjóðfélagi okkar. Þeir taka sér það fyrir hendur að skoða fiskveiðimálin, umönnunarmál aldraðra og fleiri slíka þætti. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég tel að í þeirri umfjöllun gæti verulega skorts á innsýni og skilningi á gerð íslensks þjóðfélags. Það segir okkur auðvitað að menn sem vinna á skrifstofum úti í heimi, hvort sem það er úti í París eins og þessir aðilar eða annars staðar, eru ekki endilega alltaf þeir sem geta sagt okkur best til í sambandi við efnahagsmál eða aðra hluti.

Ég treysti mér ekki til þess að svara fyrir þessar skoðanir. Ég treysti mér heldur ekki til þess að ræða þær ítarlega og efnislega hér í óundirbúinni fyrirspurn. Ég tel að það sé heldur ekki eðlileg krafa að fara fram á slíkt. En ég tel eitt og annað í þessari skýrslu, að því er varðar aldraða, að því er varðar viðhorfið til atvinnuleysis, að því er varðar fiskveiðimálin o.fl. bera vott um að þessir menn þyrftu kannski að koma hér oftar en þeir gera og setja sig rækilega inn í þær forsendur sem við starfrækjum okkar þjóðfélag á.