Umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:40:13 (2325)

1999-12-06 14:40:13# 125. lþ. 36.1 fundur 184#B umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég held að við þurfum að fá nánar fram og skýrari afstöðu hæstv. fjmrh. til þessa máls. Ég spyr: Komu sérfræðingar fjmrn. að samningu þessarar skýrslu? Yfirleitt eru skýrslur OECD unnar í samráði við sérfræðinga viðkomandi lands. Komu sérfræðingar fjmrn. að þessari skýrslu?

Þetta eru engar vangaveltur út í loftið. Núna er verið að bjóða út elliheimilin í landinu á grundvelli svokallaðrar einkaframkvæmdar. Í skýrslu ríkisstjórnarinnar er talað um aukin þjónustugjöld þar sem einkaframkvæmd er við lýði. Þetta eru engar vangaveltur. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. Og það er aumt ef hún neitar að gangast við stefnu sinni.

Ég óska eftir skýrari svörum og skýrari afstöðu hæstv. fjmrh. til þessa máls.