Umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:41:11 (2326)

1999-12-06 14:41:11# 125. lþ. 36.1 fundur 184#B umfjöllun um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í skýrslu OECD# (óundirbúin fsp.), fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það eru takmörk fyrir því hverju hægt er að gera ríkisstjórnina ábyrga fyrir. OECD er sjálf sem stofnun ábyrg fyrir sínum skrifum. Þeir koma hér reglulega, eiga viðtöl við fjölda manna hér á hinum ýmsu stofnunum, þar á meðal í fjmrn., og búa svo til sína eigin skýrslu. Þannig gengur þetta fyrir sig. Mér dettur ekki í hug að gera tillögur stofnunarinnar eða ábendingar endilega að mínum. Það er af og frá og það er fáránleg kenning að íslensk stjórnvöld séu ábyrg fyrir því sem fram kemur í skýrslum sem þessum, jafnvel þó við séum aðilar að þessari stofnun.

En það má líka undarlegt heita ef ekki má koma fram gagnrýni frá aðilum sem þessum án þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson rjúki upp til handa og fóta og fari síðan að blanda þessu saman við allt annað mál sem er ekki verið að tala um hér, þ.e. hugsanlega einkaframkvæmd á ýmsum sviðum þar sem hægt er að koma verkefnum frá opinberum aðilum yfir til aðila á einkamarkaði. Það er allt annað mál eins og við höfum margrætt í þessum sal.