Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:50:38 (2330)

1999-12-06 14:50:38# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Byggðastofnun. Frv. fjallar um vistun, skipulag, stjórnsýslulega stöðu og verkefni nýrrar Byggðastofnunar. Það er því ekki úr vegi að fara aðeins yfir helstu mál varðandi byggðamálin og aðgerðir í byggðamálum á undanförnum árum.

Við erum búin að hafa hverja byggðaáætlunina á fætur annarri. Árið 1993 kom áætlun um stefnumörkun í byggðamálum og á sl. vori var enn ein áætlunin samþykkt um aðgerðir í byggðamálum. Þess á milli og allt um kring hafa verið samþykktar, unnar og kynntar margar tillögur, margar úttektir á stöðu byggðarmála og síðan talað og talað.

Það eina sem byggðirnar sjálfar standa eftir með er að árlega fækkar um nokkur þúsund manns. Fólkið flytur af landsbyggðinni og á meðan er bara talað. Og nú, herra forseti, upplifum við að umræðan um byggðamál er ekki bara orðin skýrslur og tal heldur er hún farin að snúast meira um hrókeringar á einstaka mönnum, jafnvel á því að finna störf fyrir einstaka menn í ákveðnum flokkum. Með því er hinni raunverulegu umræðu um byggðamál og aðgerðir í byggðamálum drepið á dreif og menn ræða meira um hrókeringar.

En það er kannski ástæða til að hrókera. Hvaða flokkur hefur farið með byggðamálin á undanförnum árum? Árlega hefur fækkað milli tvö og þrjú þúsund manns á landsbyggðinni og þeir sem eftir sitja eða eftir eru í sveitarfélögunum eiga æ erfiðara með að veita félagslega þjónustu og halda uppi því mannlífi sem eðlilegt er.

Nú vitum við öll sem komum af landsbyggðinni að auðvitað er þar margt gott og gott að búa þar. En því miður verða þau sjónarmið ekki alltaf ofan á og það er nú svo að aðgengi að öðrum lífsgæðum þarf að fylgja með til þess að við sættum okkur við að búa þar.

Þessi nýju lög um Byggðastofnun, herra forseti, eru kannski söguleg staðfesting á uppgjöf Sjálfstfl. í byggðamálum. Þau eru ákveðin jarðarför stefnu og vinnu, hinnar atorkusömu vinnu Sjálfstfl. í byggðamálum á undanförnum árum sem ekki hefur hlotið neinar vinsældir því ekkert hefur náðst fram þar eða a.m.k. afar takmarkað gerst þar. Þess vegna er nauðsynlegt að færa þau mál. Það er hörmulegt, herra forseti, að vita hvernig öll undanfarin ár hafa farið forgörðum. Ekki hefur vantað úttektirnar og áætlanirnar en ekkert hefur gerst.

Ef við lítum aðeins á þær áherslur sem hæstv. ríkisstjórn hefur í byggðamálum, þá er gott að líta á þær tillögur sem liggja fyrir í fjárlagafrv. og bera þær saman við till. til þál. um aðgerðir í byggðamálum sem voru samþykktar á sl. vori og var flaggað af miklum krafti í síðustu kosningabaráttu. Nú ætluðu Framsfl. og Sjálfstfl. að fara að hefja stórátak í byggðamálum --- og sögðu kjósendum sínum frá því --- en allt öðruvísi en þeir höfðu gert á undanförnum árum þó svo þeir hafi líka sagt það þá.

Boðað var stórátak í vegamálum, vegagerð og samgöngumálum dreifbýlisins. Allir vita að samgöngumálin eru undirstaða þess að byggja upp þjónustu, vænt og gott mannlíf og þau eru mikilvæg fyrir alla atvinnustarfsemi. Boðað var stórátak í samgöngumálum. Hvað er það sem við upplifum? Niðurskurður til vegamála.

En lítum á hafnamálin. Hafnamálin í hinum dreifðu byggðum landsins eru grunnur þess að hægt sé að stunda þar öruggt útræði, sjávarútveg, viðskipti og að skip geti komið með og sótt vörur. En hvað segir fjárlagafrv. okkur? Jú, það er pólitísk stefna ríkisstjórnarinnar að skera niður í hafnamálum. Það eru þá byggðaaðgerðirnar.

Hvernig er staða bænda, hvernig er staða sauðfjárbænda? Samkvæmt nýrri skýrslu um byggðir á Íslandi, sem var að koma út af hálfu væntanlega fráfarandi Byggðastofnunar, segir að sú staða hafi aldrei verið verri og þær aðgerðir sem einhvern tíma var ætlunin að gera hafi aldrei verið gerðar. Þetta eru þær aðgerðir sem við horfum fram á í fjárlagafrv. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar finnst ekki orð um það hvernig á að taka á þessum málum.

Megum við minna á raforkumál dreifbýlisins? Við vitum að það er afar þýðingarmikið að fá öruggt og gott rafmagn úti um land, á bæi, í þéttbýli og dreifbýli og styrkja ekki aðeins almennt dreifikerfi heldur líka að koma iðnaðarrafmagni eða þriggja fasa rafmagni sem víðast þannig að samkeppnisaðstaðan geti verið jöfnuð.

Það litla framlag sem var tryggt í fjárlögum og fjárlagafrv. er nú skorið niður samkvæmt sérstöku átaki ríkisstjórnarinnar í því að draga úr verðbólgu eða hefta þenslu. Þá þótti nauðsynlegt að skera þennan lið niður. Þetta eru, herra forseti, hinar talandi aðgerðir í byggðamálum. Það þarf ekkert að segja okkur hvort það er framsóknarmaður eða sjálfstæðismaður sem er í forsvari. Þetta er það sem fólkið í landinu sér, mætir og eðlilega skilur.

Víkjum aðeins að frv. Þar er gert ráð fyrir að flytja byggðamálin yfir til iðnrn. Herra forseti, við erum með atvinnuvegaráðuneyti. Við erum með landbrn. sem fer með málefni landbúnaðarins. Við erum líka með stærðarapparat sem heitir Bændasamtök Íslands og búnaðarsamböndin vítt og breitt um landið sem fara einnig með stóran hluta í þróunarstarfi landbúnaðarins. Er nú á bætandi að fara að setja eitt ráðuneytið enn inn í þennan málaflokk?

Við erum með sjútvrn. og sjávarútvegurinn er mikilvægur fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Á kannski að taka verkefni sjútvrn. og setja undir þetta nýja ráðuneyti?

Menntamálin í hinum dreifðu byggðum landsins, þekkingariðnaðurinn sem er svo mikilvægt að byggja upp en við höfum farið varhluta af slíkri uppbyggingu. Fram sett fjárlagafrv. sýnir enga breytingu þar á. Er ástæða til að fara að taka menntamálin og setja þau undir iðnrn.? Því fátt er mikilvægara úti í hinum dreifðu byggðum en einmitt skýr stefna og framkvæmd í menntamálum.

Lítum á félagsmálin, þá úlfakreppu sem sveitarfélögunum úti um land er haldið í sem verða að bera það að flytji fólk af svæðinu og sé það búið að flytja lögheimili sitt fyrir 1. desember þá fara öll útsvörin til hins nýja sveitarfélags.

Herra forseti. Tæplega 3.000 manns flytja lögheimili sitt fyrir 1. desember á suðvesturhornið og taka með sér öll sín útsvör þangað þó svo að þetta fólk hafi kannski sótt almenna þjónustu í heimasveitarfélögum sínum langt fram til þess tíma. Er þetta eitthvert réttlæti? En það er ekki tekið á þessu. Nei, það er mikilvægara að setja ný lög um að gera Byggðastofnun að skrifstofu í iðnrn., koma nokkrum vel völdum mönnum þar í stjórn, reyndar áhrifalausum, og að ráða þar síðan framkvæmdastjóra, reyndar án ábyrgðar, hann þarf ekki að bera neina ábyrgð, en þó er hægt að koma þarna nokkrum mönnum fyrir. Þetta láta meira að segja sjálfstæðismenn hafa sig út í í uppgjöf sinni í byggðamálum. Kannski væri þetta leið til að leggja Byggðastofnun þá hreinlega niður og gera hana formlega að skrifstofu í iðnrn. eins og þarna er verið að leggja til.

[15:00]

Margt er skrýtið í sambandi við þau verkefnin sem stofnuninni er ætlað að sinna. Lögð er áhersla á að hin nýja Byggðastofnun eigi að takast á hendur rannsóknir, vera nokkurs konar rannsóknarstofnun. Ég hélt, herra forseti, að töluvert margar rannsóknarstofnanir væri þegar starfandi. Við erum með háskólastofnanir, háskóla í Reykjavík, á Akureyri og á Hvanneyri. Við erum með stofnanir víða um land sem fást við rannsóknir og við erum með rannsóknarstofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að síst væri nú þörf á að fara að búa til nýja rannsóknarstofnun. Það er svo sem eðlilegt að Byggðastofnun láti vinna fyrir sig verkefni, en að hún fari að reka rannsóknarstofnun á eigin vegum, eins og þarna er látið að liggja, á ég bágt með að sjá nokkurt einasta vit í. Eða liggur kannski eitthvað annað undir? Er, herra forseti, verið að laumast aftan að stjórnsýslunni, aftan að stjórnskipuninni? Er þarna verið að vinna einhverja forvinnu til að leggja niður atvinnuvegaráðuneytin? Á að leggja landbrn. undir iðnrn., sjútvrn. undir iðnrn. og félmrn. undir iðnrn.? Á að leggja rannsóknarstofnanir atvinnuveganna undir iðnrn.? Kannski er það þetta sem vakir fyrir mönnum.

Þær forsendur og þau verkefni sem hér eru dregin upp varðandi þetta nýja frv. gefa lítið tilefni til væntinga um að taka eigi sérstaklega á byggðamálum umfram það sem hingað til hefur verið gert.

Það má þó Byggðastofnun eiga að tiltölulega góð sátt hefur verið um stjórn hennar og stjórnsýslu, þó svo hún hafi síðan reynst vanmáttug í að koma málum áfram því hana hefur skort fjármagn. En um stöðu hennar hefur annars verið þokkaleg sátt. Ég sé ekki að sú breyting, að gera þetta að einhverri gæðingadeild innan iðnrn., sé breyting sem skapi trúverðugleika í þjóðfélaginu. Það er af og frá, herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja að hér sé um alvarlegt glapræði að ræða. Þetta er hrein vanvirða gagnvart sveitunum og byggðunum að ráðskast svona með þetta. Við erum með atvinnuvegaráðuneyti. Iðnrn., með fullri virðingu fyrir öllum þeim góðu verkefnum þar, er kannski síðasta ráðuneytið sem ætti að fela þetta. Það væri nær að hugsa sér félmrn. Því veitti ekki af að átta sig betur á hver raunveruleg staða og fjárhagsstaða sveitarfélaganna er, og verkefnaleg staða. Það væri nær að það fengi þetta verkefni því það kemur inn á flesta þá þætti.

Nei, herra forseti, hér er ekki verið að fjalla um byggðamál. Hér er annars vegar verið að fjalla um ákveðna uppgjöf Sjálfstfl. í byggðamálum. Hann hefur gefist upp á byggðamálunum, finnst þau sennilega leiðinleg, og hins vegar er verið að færa þetta yfir á framsóknarmenn. Og hvort sem þeir verða feitir af því eða ekki þá er ljóst að það skapar störf --- virðingarstöður fyrir nokkra menn. Á meðan gerist ekkert raunhæft í byggðamálum, samanber tillögur í fyrirliggjandi fjárlagafrv.

Herra forseti. Þetta er alveg hörmulegt innlegg í byggða\-umræðuna.