Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:05:05 (2331)

1999-12-06 15:05:05# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að verið væri að færa byggðamálin frá Sjálfstfl. til Framsfl. Nú býst ég ekki við því, því miður, að forsrn. verði endalaust í vörslu Sjálfstfl. þó betur færi, og enn síður að iðnrn. verði alltaf í höndum framsóknarmanna.

Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með gagnrýni á frv. hér á Alþingi og reyndar í fjölmiðlum líka. Gagnrýnin er aðallega á það hvernig eigi að velja menn til stjórnarsetu í Byggðastofnun og hvaða ráðuneyti verði yfir stofnuninni. Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur í nefndinni sem samdi drögin að frv. því við hittum gríðarlega marga menn að máli. Við fengum á fundi okkar tugi manna úr hinum ýmsu þáttum þjóðlífsins sem snúa að byggðamálum. Við fórum í heimsókn í Iðntæknistofnun, Háskólann á Akureyri og heimsóttum ársfund iðnráðgjafa o.fl. Við hittum trúlega á annað hundrað manns. Ekki einn einasti, ekki einn af þessum mönnum nefndi að máli skipti hvernig væri valið í stjórn eða hvaða ráðuneyti hefði með þessi mál að gera. Það sem stóð upp úr hjá öllu þessu fólki var hið sama, það lagði áherslu á að samhæfingu skorti í stoðkerfum atvinnulífsins og nýta þyrfti betur það fjármagn sem varið er til þessara mála. Og það kom líka fram að mikill vilji er til að vinna markvisst að því að ná fram auknu samstarfi og aukinni samhæfingu atvinnuþróunarstarfsins. Menn sögðu sem svo, við erum með Byggðastofnun, Iðntæknistofnun, Nýsköpunarsjóð, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hvað þetta heitir allt saman, og við erum að setja peninga í þetta allt, hvert í sínu lagi. Það eru allir að verja sína landhelgi. Þessar stofnanir eiga að starfa saman, þannig nýtist þetta fé best. Svo koma menn hér á Alþingi og tala um hvernig eigi að velja í stjórn eins og það sé mál málanna.