Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:27:56 (2337)

1999-12-06 15:27:56# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek að því leyti undir mál hv. þm. að nauðsynlegt sé að nefndin sem fær málið til meðhöndlunar fari mjög vel yfir það og kalli eftir þeim upplýsingum sem hún telur sig þurfa til að taka ákvarðanir í framtíðinni.

Ég hef engar efasemdir um að stofnunin hefur skv. frv. alveg heimild til að veita lán. Ég vek athygli á því að í lögunum er einmitt kveðið á um hvernig það skuli fara fram. Í því sambandi tel ég mikilvægt að vekja athygli á að það er óbreytt frá gildandi lögum að stjórnin tekur ákvarðanir og setur reglur um lán og ábyrgðarveitingar. Hún hefur síðan heimild til að framselja hluta af því valdi sínu til forstjóra. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að vefengja þetta. Ég mundi ekki gera nokkra athugasemd, nema síður sé, við að menn leituðu frekari upplýsinga og staðfestingar á því. Það er nauðsynlegt, eins og hv. þm. víkur að, að stofnunin hafi skýrar leikreglur til að vinna eftir þannig að hún geti brugðist við eins og henni ber.