Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:30:08 (2339)

1999-12-06 15:30:08# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi minna á að ég hygg að stjórnskipuleg staða nokkurra annarra sjóða sé svipuð, eins og t.d. Lánasjóðs landbúnaðarins og Ferðamálasjóðs og e.t.v. einhverra fleiri. Mig minnir að hæstv. landbrh. til að mynda skipi í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins þannig að það kæmi mér afar mikið á óvart ef það kæmi nú allt í einu í ljós að þessi sjóður hefði ekki heimild til þess að lána út peninga. Ég held að þetta hljóti að vera einhver misskilningur. En ég held að það sé bara til bóta fyrir málið að leitað sé eftir umsögnum um það þannig að menn hafi það þá svart á hvítu.

Ég er hins vegar algjörlega ósammála hv. þm. um að það væri best af öllu, úr því að breyta á lögum um Byggðastofnun, að leggja þá stofnun niður. Ég held að þvert á móti að hún hafi miklu hlutverki að gegna, bæði til þess að samþætta atvinnuþróunarstarf eins og sem hún hefur gert og til þess að efla þróunarvinnu og rannsóknir eins og hún hefur verið að gera norður á Sauðárkróki með mjög góðum árangri. Og síðast en ekki síst að sinna því hlutverki að lána peninga til atvinnulífs á landsbyggðinni sem þarf á því að halda þegar aðstæður eru eins og ég var að lýsa í ræðu minni áðan.