Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:36:44 (2343)

1999-12-06 15:36:44# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi nú aldrei notað orðið fordómar varðandi verðbréfafyrirtækin. Ég var einfaldlega að vekja athygli á þeirri staðreynd að meðalstór og minni fyrirtæki eru í þessari stöðu sem ég var að lýsa hér vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á fjármálamarkaðnum. Hitt er að það er engin spurning um það að verðbréfafyrirtæki og lánafyrirtæki hafa verið að lána í stórum stíl til fyrirtækja á landsbyggðinni. Það er enginn að draga neitt úr því. Ég er bara einfaldlega að vekja athygli á því að þessi breyting hefur haft það í för með sér sem ég var að segja um minni fyrirtækin. Það er þó ekki aðalatriði málsins.

Hv. þm. spurði mig líka um flóttann frá landsbyggðinni. Ég er alveg sammála hv. þm. um að þetta er mjög alvarlegt mál. Ég vil hins vegar segja um það að þetta er flókið mál sem á sér mjög margar ástæður. Þó að Byggðastofnun, lítil stofnun suður í Reykjavík, sé að reyna að puða eitthvað í þessum efnum þá toga auðvitað aðrir kraftar miklu fastar á móti. Við þurfum m.a. ekki annað en lesa í gegnum fjárlagafrv. til þess að sjá hvernig fjármunum er beinlínis stýrt í gegnum fjárlögin til þess að byggja upp þjónustu, fjárfestingu og annað þess háttar á höfuðborgarsvæðinu. Og enn eitt annað sem Byggðastofnun hefur verið að vekja athygli á er hvernig þessi fjármunatilfærsla í landinu hefur verið að draga til sín fólk og þjónustu suður á höfuðborgarsvæðið. Ég held að það sé einmitt þetta hlutverk stofnunarinnar, að vekja athygli á þróun af þessu tagi, sem gerir það að verkum ásamt öðru að hægt er að réttlæta starfsemi hennar, þ.e. vegna þess að hún hefur þetta nauðsynlega hlutverk að reyna að benda á þessa alvarlegu þróun sem kostar þjóðfélag okkar marga milljarða á ári í ónauðsynlegum fjárfestingum og skilur eftir vannýttar fjárfestingar á landsbyggðinni sem hægt væri að nýta miklu betur ef íbúastraumurinn væri með öðrum hætti.