Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:52:50 (2346)

1999-12-06 15:52:50# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að nokkrar deilur eru uppi milli stjórnarflokkanna og greinilegt er að áherslur eru a.m.k. mismunandi meðal ýmissa þingmanna Sjálfstfl. Það er rétt hjá hv. þm. að þau viðbrögð félmrh. sem birtust voru fyrst og fremst varðandi milljarðinn, en eins og bent hefur verið á í þessum umræðum þá virðist hinn ágæti Framsfl. helst tala í milljörðum. Það tel ég að hluta til hafa skýrt þessi ummæli hæstv. félmrh. En því miður bendir það auðvitað til þess að hæstv. félmrh. hafi grunsemdir um að eitthvað fleira hangi á spýtunni. Ég er út af fyrir sig sammála hv. þm. um að milljarðurinn sem slíkur hefur ekkert með þetta frv. að gera. En þetta virðist benda til þess að hæstv. félmrh. sé í töluvert miklum vafa um hvort eigi að standa við nokkuð af því sem a.m.k. var gefið í skyn við hann þegar stjórnarsáttmálinn var saminn.

Það er ekki svo, hv. þm., að við samfylkingarþingmenn teljum að þeir stjórnarflokkar sem nú eru eigi að eilífu að sitja við stjórnvölinn. Því fer víðs fjarri. Það er hins vegar ljóst, eins og okkur öllum er kunnugt, að með þessu frv. er, miðað við stöðuna í dag, verið að færa á milli flokkanna og um það var samið í stjórnarsáttmálanum. Stjórnarsáttmáli þessara flokka nær að sjálfsögðu ekki lengra en til þess tíma sem þeir sitja saman í stjórn.

Það er einnig rétt hjá hv. þm. að atvinnuþátturinn er afar mikilvægur og það er mjög mikilvægt að atvinnuráðgjöfin og Iðntæknistofnun séu í mjög góðu sambandi og Byggðastofnun og Iðntæknistofnun. Það leysir hins vegar ekki þann fjölbreytta og flókna vanda sem um er að ræða í þessum málaflokki og þess vegna er afar mikilvægt að ekki sé bara horft til atvinnuþáttarins eða að hann sé yfirgnæfandi heldur að hinir þættirnir komi einnig við sögu og á það var ég að benda í máli mínu áðan.