Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:17:41 (2353)

1999-12-06 16:17:41# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þm. Pétur Blöndal óski ekki aðeins eftir stanslausum ófriði. (Gripið fram í: Leggja stofnunina niður.) Ég notaði orðið friður. Auðvitað eru málefni Byggðastofnunar og byggðamálin rædd á Alþingi sem betur fer því ekki veitir af. Mönnum hefur ekki tekist að ná utan um þá þróun sem orðið hefur í byggðamálum hér og annars staðar. Þeir hafa kannski ekki lagt nægilega mikið á sig. En ég tel, eins og ég rakti í máli mínu, að menn hafi breytt mjög um áherslur í Byggðastofnun og að verið sé að færa málin til þess vegar að árangur náist frekar, enda hefur verið lagt í rannsóknir sem sýna að fleira en atvinnumál skipta máli í þessu sambandi og Byggðastofnun hefur einmitt verið að leggja áherslu á það að undanförnu.

Varðandi lánastarfsemi Byggðastofnunar og styrki þá eru þetta afskaplega litlir fjármunir ef menn líta á það í heild hvað fer í styrki.

Það eru kannski 1.300 millj. kr. á ári sem Byggðastofnun hefur til þess að lána. Og ætli þessir stóru sjóðir, Nýsköpunarsjóður, Þróunarfélagið og margir fleiri --- ég tala nú ekki um allar lánastofnanir landsins --- hafi nú ekki dálítið meiri peninga til þess að lána og ættu þess vegna að vera færir um að keppa við þetta litla fjármagn sem Byggðastofnun hefur úr að spila? En menn tala alltaf eins og það sé að velta öllu og skipti öllu máli í atvinnumálum úti á landi. Sem betur fer þá koma nú bankarnir eitthvað til móts við þetta en ekki nægilega mikið, því miður.