Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:13:34 (2368)

1999-12-06 17:13:34# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þessi umræða um frv. til laga um Byggðastofnun er orðin allítarleg. Í þessari umræðu hefur komið fram að flestir vilja efla Byggðastofnun með það fyrir augum að efla byggðastefnuna í landinu.

Mikilvægi þess að efla stefnuna á fjölþættum grunni hefur komið fram í máli flestra nú síðast í máli hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar sem sagði að það væri tímaskekkja og löngu liðin tíð að menn einblíndu á einn þátt atvinnuuppbyggingar. Við höfum ekki farið varhluta af því í umræðu um atvinnumál á undanförnum dögum og vikum. Þar vísa ég til umræðunnar um Fljótsdalsvirkjun þar sem menn hafa einblínt á einn þátt atvinnumála og vilja leysa vanda 8.400 manna byggðar með því að staðsetja þar eitt stærsta álver heimsbyggðarinnar.

Nei, menn verða að horfa á málið frá víðu sjónarhorni og skoða alla þætti þess. Þetta þarf jafnframt að endurspeglast í skipulagi þeirra stofnana sem taka eiga á þessum málum. Hvernig má best gera það?

[17:15]

Að vissu leyti höfum við búið við ákjósanlegt skipulag í þessu efni þar sem Byggðastofnun hefur heyrt undir forsrn. En veigamesta breytingin sem verið er að gera stjórnsýslulega séð er einmitt sú að Byggðastofnun sem hefur verið skilgreind sem sjálfstæð stofnun verði nú sérstök stofnun og heyri undir yfirstjórn iðnrh. Þetta hefur verið gagnrýnt og ég tek undir þá gagnrýni.

Reyndar hefur það komið fram í máli sumra þeirra alþingismanna sem hafa varið þetta frv., þar á meðal hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, sem benti á að stærstur hluti af atvinnuþróunarstarfsemi í landinu væri að færast undir iðnrn. Það má vel vera að sú kunni að verða framtíðin að við stefnum í þá áttina. En þá þarf líka að taka um það ákvörðun en sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Á Alþingi hefur verið rætt um þessi mál, m.a. í tengslum við lög um þingsköp. Við höfum rætt það hvernig eigi að skipuleggja nefndastarf á Alþingi. Menn hafa rætt kosti þess og galla að færa atvinnumálin undir eina allsherjar efnahagsnefnd, atvinnumálanefnd, og þar hefur legið að baki sama hugsun og ég er að leggja áherslu á að menn líti heildstætt á þessi mál. En sú ákvörðun hefur einfaldlega ekki verið tekin að stíga það skref sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson segir að sé í vændum að stigið verði.

Annað sem ég vildi gagnrýna varðandi stjórnsýsluna eða stjórnskipunina er sú takmörkun á lýðræðislegu valdi sem á sér stað með frv. Eins og málum er háttað nú kýs Alþingi stjórn Byggðastofnunar, Alþingi kýs sjö manna stjórn yfir Byggðastofnun, en nú skal gerð breyting á þessu. Í 3. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra skipar á ársfundi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar til eins árs í senn og sjö menn til vara. Iðnaðarráðherra skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnar.``

Í greinargerð með frv. um 3. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að horfið verði frá þeirri skipan mála að Alþingi kjósi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar að afloknum þingkosningum. Þess í stað skipi iðnaðarráðherra sjö manna stjórn Byggðastofnunar á ársfundi sem halda skal fyrir 1. júlí ár hvert. Einnig er lagt til að iðnaðarráðherra skipi formann og varaformann stjórnar.``

Ráðherra er síðan veitt heimild til þess að kveða nánar um atriði er lúta að ársfundi í reglugerð. Að öðru leyti, og um skýringar á breytingunni, er vísað til umfjöllunar í almennum athugasemdum um stjórnsýslulega stöðu Byggðastofnunar.

Það er svo sannarlega gert og er þá vísað í skýrslu sem Ríkisendurskoðun mun hafa gert árið 1996. Þar hafi komið fram að nauðsynlegt væri að koma á milli ráðherra og stofnunar stjórnsýslusambandi, eða eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Taldi Ríkisendurskoðun eðlilegt að breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar yrðu teknar til athugunar þannig að stjórnsýslusambandi yrði komið á milli ráðherra og stofnunarinnar. Sú breyting sem hér er lögð til á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar felur í sér að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn Byggðastofnunar en að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð á sínum störfum gagnvart ráðherra.``

Hér er verið að færa vald sem áður var á Alþingi undir einn ráðherra, þ.e. iðnrh.

Herra forseti. Ég hef ekki sannfærst um ágæti þess að gera slíkar breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar. Margt af því sem tekið er á í frv. virðist mér hins vegar vera til góðs, vera skref fram á við. Það er alveg greinilegt að ýmislegt í starfi Byggðastofnunar á undanförnum árum hefur verið ágætt og sannarlega skref fram á við. En það sem hér er verið að gera, að taka stofnunina undan Alþingi og færa hana undir einn fagráðherra, finnst mér vera óhyggilegt. Ég hefði talið að við ættum að gefa okkur betri tíma og Alþingi alla vega yrði gerð grein fyrir þeirri framtíðarsýn sem menn byggja tillögur sínar á. Megingagnrýni mín á frv. lýtur að stjórnsýslunni og að skipun í stjórn stofnunarinnar, þótt ýmislegt annað í frv. kunni að vera skref fram á við.