Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:22:31 (2369)

1999-12-06 17:22:31# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:22]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það frv. sem við ræðum hér ásamt skýrslunni um Byggðastofnun, sem heitir Byggðir á Íslandi -- aðgerðir í byggðamálum og ég vék að í andsvari mínu áðan er að mörgu leyti athyglisvert. Ég ætla hins vegar ekki að hafa mjög langt mál um frv. Ég var búinn að lýsa því yfir í fyrri umræðu að ég er andvígur því. Ég tel að verk Byggðastofnunar eigi að heyra undir forsrn. og hef ekki breytt um skoðun við það að lesa þá skýrslu sem Byggðastofnun hefur nýverið gefið út.

Byggðastofnun er stofnun sem fæst við öll málefni er varða hagsmuni byggða. Ég verð að segja alveg eins og er, eftir að hafa skoðað gildandi lög um stofnunina og tilheyrandi reglugerð um Byggðastofnun, að ég sé í rauninni ekkert í þeim lögum og reglugerð sem kemur í veg fyrir að Byggðastofnun eða stjórn Byggðastofnunar geti tekið upp samstarf við hinar ýmsu stofnanir í þjóðfélaginu. Ég sé ekkert í núverandi lögum sem takmarkar það að taka upp samstarf við aðrar stofnanir eða félög eða stefna að nýsköpun. Ég kem ekki auga á það. Ég tel að í rauninni hafi Byggðastofnun á síðustu missirum verið að móta starf sem sé okkur til framdráttar og að sú upplýsingavinna sem Byggðastofnun hefur látið vinna varpi mun skýrara ljósi á það hvað þurfi að takast á við á næstu missirum.

Það er hins vegar ýmislegt í tillögum skýrslunnar sem ég ætla að víkja að og mun gera það á eftir. Það sem ég ætla að segja í bili um frv. er að samkvæmt því á iðnrh. að vera stefnumótandi í byggðamálum, ég fæ ekki annað séð eins og frv. er úr garði gert. Hann á að hafa yfirstjórn byggðamálanna. Hann er sama sem formaður stjórnar nýrrar Byggðastofnunar ef hún verður færð undir iðnrn. Stjórnin verður 14 manna, þ.e. sjö menn og sjö til vara, skipaðir af iðnrh. og hann er sama sem forstjóri yfir stofnuninni. Mér sýnist þetta vera í stuttu máli það sem iðnrh. er ætlað.

Ég tel, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að byggðamálin séu þannig vaxin að þau eigi að vera undir verkstjórn forsrh. hverju sinni. Það er ekkert í núverandi lögum sem hamlar því að Byggðastofnun geti tekið upp aukið samstarf eða unnið að styrkingu atvinnuþróunarfélaga sem hefur verið á stefnu Byggðastofnunar.

Í skýrslunni er vikið að sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum, skógrækt og landnýtingu. Það er vikið að menntun og menningu, samgöngum og ferðaþjónustu. Ég tel að þetta séu þannig málefni að þau hljóti í heild sinni að heyra undir forsrn. Ég mælist til þess að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar skoði það virkilega vel og vandlega hvort málunum sé ekki betur borgið undir verkstjórn forsrn., sem á að hafa yfirsýn yfir stöðu mála almennt hér á landi, en ekki að færa þetta til einstaks fagráðuneytis.

Hér var rætt um lánastarfsemi Byggðastofnunar og mig langar aðeins til að koma inn á það. Ég held að minni fyrirtæki úti á landsbyggðinni hafi ekki almennt átt völ á betri lánum eða hagstæðari lánum en þau hafa átt aðgang að hjá Byggðastofnun. Að minnsta kosti þar sem ég þekki til hefur mér sýnst að minni fyrirtæki í hvaða atvinnugrein sem er hafi oft og tíðum orðið að leita til Byggðastofnunar með lánafyrirgreiðslu og fengið hana þar. Ég hef ekki séð að þau kjör væru áberandi lakari en í bönkum almennt, fyrir utan það að bankastofnanir úti á landi hafa ekki verið sérlega opnar fyrir því að lána fé í atvinnurekstur.

Ég ætla aðeins að víkja að skýrslunni Byggðir á Íslandi -- aðgerðir í byggðamálum. Eftir að hafa farið yfir nokkra kafla, ég held bara allflesta, þá finnst mér að vinnan við að greina vandann hafi verið nokkuð góð, bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Mér er hins vegar spurn hvers vegna kaflinn um landbúnaðarmál byrjar á því að telja upp öll útgjöld landbúnaðarins. Hvers vegna í ósköpunum eru þá öll útgjöld í sjávarútvegi ekki talin upp undir kaflanum um sjávarútvegsmál? Af hverju er ekki til samræmis ráðuneyti sjávarútvegsmála þá talið upp sem kostnaður við sjávarútveginn? Hér er t.d. skógrækt og stjórnun landbrn. allt talið sem kostnaður við landbúnaðinn, heildarútgjöld hins opinbera til landbúnaðar. Ég held að rétt hefði verið að setja þetta upp í samræmi og vera með sjávarútveginn eins upp settan og draga þá fram hvaða kostnaður því er samfara að stjórna sjávarútvegi hér á landi. Mér finnst að það hefði verið rétt úr því að kaflinn um landbúnað var settur svona upp.

[17:30]

Þegar talað er um landbúnað þá virðist allt sem honum tengist skrifað sem kostnaður við landbúnaðinn, sem beinn styrkur við bændur. Hvers vegna er ekki sama framsetning viðhöfð í sjávarútvegsgeiranum? Af hverju er kostnaður við Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Fiskistofu, sjútvrn., Siglingastofnun að hluta, Landhelgisgæslu og svo mætti lengi telja, ekki settur fram á sama hátt? Af hverju skilgreinum við ekki mál sjávarútvegsins svipað og við skilgreinum málefni landbúnaðarins?

Mér finnst eins og ævinlega sé ýjað að því að bændur séu á framfæri íslensku þjóðarinnar. Því vil ég leyfa mér að mótmæla. Ég tel að íslenskir bændur hafi eftir atvikum staðið sig vel í búrekstri sínum. Þeir hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum sem þjóðin má ekki vanþakka. Þeir áttu stóran þátt í að ná niður verðbólgu með lækkun á matvöru. Ég tel að íslenska þjóðin skuldi bændum talsvert og að þá beri að styrkja til að komast út úr vandræðum sínum. Þeir hafa mjög lágar tekjur.

Mig langar að víkja að tillögum í sjávarútvegsmálum í skýrslunni. Eftir að komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að vandinn sé m.a. sá að aflaheimildir hafi í umtalsverðum mæli verið seldar eða fluttar burt frá sjávarútvegsbyggðunum og úrvinnsla sjávarafla flutt til annarra staða eða út á sjó, er lagt til að gripið verði til þeirra ráða að sveitarfélögin komi meira inn í kvótaverslunina en verið hefur. Ég skil hugsunina en sveitarfélögin hafa mjög veika fjárhagslega stöðu. Þau munu eiga erfitt með að kaupa þorskígildi á 1.000 kr. kílóið. Sama má segja með fiskvinnslurnar, þær eiga að fá rétt til eignarheimildar á kvóta. 80% fiskvinnslu og útgerðar eru í eigu sömu aðila hér á landi. Ég held að það mundi ekki breyta málinu mikið. Aðalatriðið er að mér finnst tillögurnar um aðgerðir í byggðamálum sem fram koma í skýrslunni ekki nógu markvissar til að leysa vandann.