Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:54:56 (2376)

1999-12-06 17:54:56# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að staða Byggðastofnunar og byggðamálanna undanfarin ár hafi ekki verið góð. Ég er ekki að andæfa gegn þessum breytingum hér með þeim rökum sérstaklega að það sem fyrir var hafi verið fullkomið eða gallalaust. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að að mörgu leyti hafi veik staða Byggðastofnunar og vanmáttur hennar til að sinna þeim miklu og erfiðu verkefnum sem ástand í byggðamálum hefur í raun boðið upp á verið okkur fjötur um fót að þessu leyti undanfarin ár vegna þess að menn hafa eftir sem áður notað Byggðastofnun sem skálkaskjól. Menn hafa vísað vandamálunum þangað og stjórnvöld hafa þvegið hendur sínar, af því að það var sent bréf eða tilmæli til Byggðastofnunar og málið var komið þangað. Svo voru auðvitað möguleikar Byggðastofnunar og úrræði og fjárhagslegt bolmagn mjög takmarkað til að gera nokkuð raunhæft í málunum þar sem meira og minna öll landsbyggðin á Íslandi átti undir.

Ég tel því að þetta ástand hafi ekki verið gott og í raun hafi Byggðastofnun frá og með upp úr 1990 að mörgu leyti verið í úlfakreppu og það sé hluti af því hve lítið okkur hefur miðað undanfarin ár. Ég held aftur á móti að annað hvort fyrirkomulagið væri betra, þ.e. mun öflugri og sjálfstæðari Byggðastofnun sem væri þeim verkefnum vaxin sem til hennar er vísað eða að hún væri beint á pólitíska ábyrgð framkvæmdarvaldsins, heyrði milliliðalaust og án nokkurrar stjórnar undir þann ráðherra sem fer með málaflokkinn. Þá er þó a.m.k. hægt að draga athyglina að hinni pólitísku ábyrgð sem menn bera á hverjum tíma.

Af því að svo vel ber í veiði að hæstv. forsrh. er kominn hér þá vil ég leyfa mér að nota nokkrar sekúndur, herra forseti, til að beina til hans eftirfarandi spurningu: Er ekki ljóst að þetta þýðir flutning á málaflokknum sem slíkum í heild sinni og mun þetta þá í framhaldi af lagabreytingunni fela í sér að hæstv. forsrh. gefi út nýja reglugerð um Stjórnarráð Íslands þar sem skýrt kemur fram að byggðamál, sem málaflokkur og í heild, heyri undir iðnrh.?